Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Árni Þór Sigurðsson: „Þetta verður áþreifanlegt þegar rússneskar fjölskyldur fá sendar kistur heim“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er óhætt að segja að andrúmsloftið í Moskvu sé lævi blandið. Á yfirborðinu verður maður í sjálfu sér ekki mikið var við hernaðarátökin sem eiga sér stað í Úkraínu en ef vel er að gáð þá er hægt að fullyrða að áhrifa stríðsins gæti í daglegu lífi Moskvubúa,“ segir Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi.

„Þá á ég ekki síst við að löggæsla hefur verið hert og við sjáum ekki bara hefðbundna götulögreglu heldur líka óeirðalögreglu og jafnvel hermenn á götum úti. Eins og komið hefur fram í fréttum þá hafa margar vestrænar verslunarkeðjur ákveðið að yfirgefa Rússland og það fer ekki fram hjá okkur að þær verslanir eru lokaðar. Síðan sér maður auðvitað umfjöllun um „hina sérstöku hernaðaraðgerð“ eins og stjórnvöld hér kjósa að kalla herleiðangurinn í Úkraínu í fjölmiðlum; sumir fjölmiðlar eru með flettiskilti svo vissulega er almenningur sér meðvitaður um hvað er í gangi, jafnvel þótt það sé matreitt eins og stjórnvöld vilja.“

Árni Þór segir að Moskva hafi löngum verið talin mjög örugg borg að búa og starfa í. „Ég hef aldrei fundið fyrir ótta í Moskvu, hvorki fyrr á tíð né núna. Það hefur ekki breyst með síðustu vendingum. Í sjálfu sér finnur maður ekki beint fyrir stríðsrekstrinum í Úkraínu úti á götu í Moskvu. Það er meira í gegnum lestur á fjölmiðlum, samtölum við fólk og svo auðvitað í gegnum efnahagsáhrifin sem maður upplifir stríðið.“ Þess má geta að samfélagsmiðlar eins og Twitter, Instagram, Facebook auk YouYube eru lokaðir. Þá hefur verið lokað fyrir sumar erlendar fréttaveitur eins og BBC og CNN.

Myndin sem dregin er upp í Rússlandi er frekar einhæf.

„Rússneskir fjölmiðlar eru flestir hverjir undir beinni stjórn stjórnvalda eða að minnsta kosti mjög hliðhollir stjórnvöldum. Umfjöllun þeirra um átökin í Úkraínu eru þar af leiðandi mjög á einn veg, það er að segja í samræmi við þá línu sem stjórnvöld leggja. Þetta á bæði við um beinan fréttaflutning og eins í umræðuþáttum. Þó hefur engu að síður borið á því að í spjallþætti komi fólk með gagnrýn sjónarmið en það er í miklum minnihluta. Almenningur í Rússlandi fylgist ágætlega með fjölmiðlum, ekki síst sjónvarpsstöðvunum, en les ekki mikið erlendar fréttasíður og því verður myndin sem stjórnvöld draga upp býsna allsráðandi.

Myndin sem dregin er upp í Rússlandi er frekar einhæf. Það litar að sjálfsögðu viðhorf almennings hér. Það þarf líka að hafa í huga að stjórnvöld hafa um nokkuð langt skeið alið á tortryggni í garð Úkraínu með fjandsamlegri orðræðu um illa meðferð á íbúum af rússnesku bergi, einkum í austustu héruðum Úkraínu, um nasista og fasista sem fari með völdin í landinu og fleira í þeim dúr. Þótt því fari víðs fjarri að allir leggi trúnað á þessa útgáfu þá sýnist mér samt að þessi lýsing rússneskra stjórnvalda á stöðu mála í Úkraínu eigi talsverðan hljómgrunn meðal Rússa, einkum þeirra sem hafa ekki aðgang að fréttum annars staðar frá. Fólk veit auðvitað af þessum átökum og þótt fréttaflutningurinn geti verið bjagaður þá gerir fólk sér grein fyrir að svona átök kosta mannslíf. Þetta verður áþreifanlegt þegar rússneskar fjölskyldur fá sendar kistur heim með föllnum ættingjum.“

Víða sést bæði almenn lögregla sem og óeirðalögregla.

Hvað með mótmæli í Rússlandi?

- Auglýsing -

„Mótmælendur hafa komið saman í Moskvu, Pétursborg og fleiri borgum aðallega um helgar til að mótmæla stríðsrekstrinum. Löggæsla hefur verið aukin og víða sést bæði almenn lögregla sem og óeirðalögregla og mótmælendur hafa verið handteknir þúsundum saman. En í margmilljónaborg eins og Moskvu þarf meira til en nokkur þúsund mótmælendur til að eftir því verði sérstaklega tekið. Engu að síður eru mótmælin til marks um að skoðanir eru skiptar og þar að auki eru margir sem kjósa að taka ekki þátt í mótmælum enda búið að herða viðurlög við hvers kyns andófi gegn stríðsrekstrinum í Úkraínu.“

Árni Þór Sigurðsson
Árni Þór og forseti Kirgistan.

Mikið högg fyrir Rússland

Orkan hefur löngum verið eitt af tækjum alþjóðastjórnmálanna og þá hjá stórum olíu- og gasframleiðsluríkjum. Rússland er eitt af olíu- og gasstórveldunum og getur nýtt stöðu sína á þeim vettvangi í pólitískum tilgangi í samskiptum á alþjóðasviðinu.

- Auglýsing -

„Nú er staðan sú að um 30-40% af olíu og gasi innan ESB kemur frá Rússlandi svo Evrópa er mjög háð þessum viðskiptum við Rússland. Að sama skapi er Rússland háð tekjum af olíu- og gassölu til Evrópu svo líklega munu báðir aðilar reyna að halda þessum orkuviðskiptum eins og hægt er gangandi og á grundvelli gildandi samninga. Ákvörðun Þýskalands um að stöðva NordStream 2-leiðsluna er hins vegar mikið högg fyrir Rússland og spurning er hvort það er varanleg ákvörðun eða hvort hún yrði tekin upp á síðari stigum.“

Refsiaðgerðir Vesturlanda eru hins vegar umfangsmiklar.

Það hefur komið skýrt fram hjá talsmönnum NATO og einstakra aðildarríkja að ekki komi til greina að Atlantshafsbandalagið blandi sér með beinum hætti í átökin, enda mætti þá búast við að um allsherjarstríð yrði að ræða og það vill fólk skiljanlega forðast.

„Refsiaðgerðir Vesturlanda eru hins vegar umfangsmiklar, reyndar miklu víðtækari en við höfum áður séð, og það sem mestu varðar er að Vesturlöndin eru einhuga í aðgerðum sínum. Það er sífellt verið að bæta í aðgerðir til að auka þrýsting á rússnesk stjórnvöld en enn sem komið er hafa slíkar refsiaðgerðir ekki haft áhrif á stefnu stjórnvalda hvað stríðsstefnuna áhrærir.“

Ákvörðunin um að víkja rússneskum bönkum úr SWIFT-kerfinu hefur vitaskuld mikil áhrif, enda stöðvast að mestu fjármagnsflutningar milli Rússlands og Vesturlanda í báðar áttir. Rússnesk stjórnvöld hafa brugðist við þessu til dæmis með því að heimila rússneskum aðilum að greiða skuldir sínar, fyrir vöru og þjónustu, í rússneskum rúblum í staðinn fyrir gjaldeyri.

Það er talið að um 5% af vinnuafli í Rússlandi starfi eða hafi starfað fyrir vestræn fyrirtæki.

„Refsiaðgerðir Vesturlanda eru þegar farnar að segja til sín í rússnesku efnahagslífi. Við getum nefnt hrun rússnesku rúblunnar, sem hefur fallið um fimmtíu prósent frá því í febrúar, og rússneskur hlutabréfamarkaður hefur líka fallið og er nú í hálfgerðu frosti. Þetta hefur áhrif á verðbólguna sem hefur líka tekið stökk; í upphafi ársins gerði rússneski Seðlabankinn ráð fyrir að verðbólgan 2022 yrði um 4% en nú þegar er sú spá komin í 8,5%. Þá hafa stýrivextir Seðlabankans verði hækkaðir úr um 9% í yfir 20% svo það þarf ekki fleiri vitnanna við til að sjá að áhrifin á rússneskan efnahag eru mikil. Þessu til viðbótar hafa fjölmörg vestræn fyrirtæki ákveðið að hætta starfsemi eða loka tímabundið og við sjáum margar slíkar verslanir lokaðar. Það er talið að um 5% af vinnuafli í Rússlandi starfi eða hafi starfað fyrir vestræn fyrirtæki svo lokun þeirra hefur mikil áhrif á atvinnuleysi í landinu. Fólk hefur eðlilega áhyggjur af þessari stöðu og er meðal annars óöruggt um vinnuna sína og ævisparnaðinn sinn. Vissulega munu stjórnvöld reyna að flytja margvíslega starfsemi inn í landið, líkt og gert var eftir að refsiaðgerðir vegna innlimunar Krímskaga voru lagðar á árið 2014, en aðgerðirnar nú eru svo umfangsmiklar að það verður erfitt fyrir stjórnvöld að mæta þeim öllum með sama hætti og áður. Við þetta bætist síðan að verulegur hluti af gjaldeyrisforða rússneska Seðlabankans hefur verið frystur á Vesturlöndum svo bankinn hefur ekki aðgang að honum sem veldur miklum vandræðum við að standa í skilum með afborganir og aðrar skuldbindingar. Það er hætt við að þetta ástand verði langdregið, jafnvel þótt hernaðinum í Úkraínu lyki.“

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór á fundi með Slutsky.

Einangrast á alþjóðavettvangi

Árni Þór er spurður hvernig hann haldi að tekið verði á móti rússneskum almenningi erlendis og hvaða áhrif stríðið muni hafa á hinn almenna borgara heima fyrir og erlendis.

það er í sjálfu sér ekki góð þróun fyrir hinn almenna borgara.

„Þetta er ein hlið málsins sem lítið er talað um á Vesturlöndum. Því miður er það of algengt að það er sett samasemmerki milli rússnesks almennings og stjórnvalda. Og við höfum heyrt fréttir af Rússum sem hafa orðið fyrir aðkasti á Vesturlöndum þótt þeir hafi ekkert með stefnu Pútíns að gera. Til viðbótar þá ná refsiaðgerðir Vesturlanda einnig til margs konar samstarfs á sviði til dæmis mennta- og menningarmála og íþrótta. Þetta kemur meðal annars niður á námsmönnum, fræðimönnum og listafólki sem ber enga ábyrgð á stríðsrekstrinum en því miður eru fórnarlömbin í átökum af þessum toga iðulega þau sem enga ábyrgð bera. Áhrifin af því að útiloka samstarf við alla Rússa, á hvaða sviðum sem er, geta hins vegar hæglega orðið þau að reka fólk í fangið á stjórnvöldum í Kreml og á þann hátt geta áhrifin farið gegn tilganginum. Við þessu er samt sennilega lítið að gera en er engu að síður umhugsunarefni. Heildaráhrifin verða þau sýnist manni að Rússar munu einangrast á alþjóðavettvangi, sennilega um langa hríð, og það er í sjálfu sér ekki góð þróun fyrir hinn almenna borgara.“

 

Fylgi Pútíns hafði dalað

Árni Þór kom til starfa í Moskvu um mitt ár 2020 þegar Covid-faraldurinn var kominn á skrið svo afhending trúnaðarbréfs fór fram við sérstakar aðstæður. „Í stað þess að afhenda forsetanum trúnaðarbréfið persónulega og eiga svo stutt samtal við hann um samskipti ríkjanna var trúnaðarbréfið afhent prótókollstjóra forsetaembættisins og síðan kom Pútín inn í salinn þar sem athöfnin fór fram, í talsverðri fjarlægð, og ávarpaði mig og aðra sendiherra sem afhentu trúnaðarbréf á sama tíma úr ræðustól án þess síðan að heilsa hverjum og einum eða eiga samtöl við okkur sendiherrana. Ég hef þess vegna ekki hitt hann nema bara í mýflugumynd. Það sama var uppi á teningnum fyrir nokkrum árum þegar ég var í Rússlandi með forseta Íslands vegna starfa minna sem sendiherra norðurslóða. Þannig að ég hef í sjálfu sér ekki mikið um hann að segja sem persónu.

Skoðanakannanir hafa bent til þess að fylgi við hann hafi dalað en það er líka þekkt úr heimssögunni að þjóðarleiðtogar leggi í stríð þegar svo árar í því augnamiði að þjappa þjóðinni að baki sér. Við sáum til dæmis flokk Pútíns, Sameinað Rússland, tapa fylgi í þingkosningum í haust enda þótt hann hafi enn meirihluta þingsæta í rússnesku dúmunni. Almennt hefur verið talað að það megi rekja til óánægju innanlands til dæmis með stöðu efnahagsmála, skerðingar á lífeyri og hækkun eftirlaunaaldurs, enda lofaði Pútín margháttuðum umbótum í félagsmálum í aðdraganda þingkosninganna, ugglaust til að rétta stöðu flokksins af að einhverju leyti.“

Árni Þór Sigurðsson
Árni Þór með Maia Sandu, forseta Moldóvu.

Tilbúinn að ganga mjög langt

Árni Þór segir að það hafi komið sér á óvart að Pútín skyldi ákveða að ráðast inn í Úkraínu og freista þess að taka yfir landið allt. „Maður var búinn undir það að Rússland myndi hugsanlega fara inn í austustu héruðin, Donbas, en hafði talið það mjög ósennilegt að um allsherjarinnrás yrði að ræða. Það kemur síðan einnig á óvart að svo virðist sem herleiðangurinn sé ekki að ganga eins og Rússar hafa væntanlega reiknað með, að mótspyrna Úkraínu sé meiri en þeir gerðu ráð fyrir. Ef til vill spilar inn í að tilgangur leiðangursins er kannski ekki svo augljós fyrir hermönnunum og baráttuviljinn gegn bræðraþjóðinni eitthvað takmarkaður. Um þetta er ekki gott að segja en maður veltir því óneitanlega fyrir sér því hernaðarlegir yfirburðir Rússlands ættu að vera mjög miklir.“

Baráttuvilji Úkraínumanna er augljóslega mikill.

Er hrikalegasta sviðsmyndin að raungerast?

„Sú staðreynd að rússneski herinn er að reyna að ná stjórn á öllu landinu – og líklega hefur Pútín haft í hyggju að koma á leppstjórn í Kænugarði – bendir til þess að Rússlandsforseti sé tilbúinn að ganga mjög langt. Hann getur kannski náð Úkraínu undir sína stjórn en það er afar ósennilegt að hann geti haldið Úkraínu til lengri tíma. Baráttuvilji Úkraínumanna er augljóslega mikill og stuðningur Vesturlanda skiptir þar líka máli. Svo hefur Pútín tekist að sameina úkraínsku þjóðina gegn sér fyrir utan að sameina Vesturlönd í víðtækum refsiaðgerðum. Orrustan vinnst kannski en stríðið tapast.“

Árni Þór sagði í viðtali á RÚV 24. febrúar að hernaðaríhlutunin sem slík hafi verið yfirvofandi allt frá því Rússlandsforseti lýsti yfir sjálfstæði Lúgansk og Donetsk í Donbas-héraði í Úkraínu.“ Hann er nú spurður hvernig fólk hafi fundið eða skynjað að þetta væri yfirvofandi frá þessum tíma og hvað benti til þess.

„Hér er ég fyrst og fremst að vísa til umræðunnar í Rússlandi; orðræða stjórnvalda og stjórnmálamanna var býsna mikið öll á einn veg. Þar hefur áherslan verið á að úkraínsk stjórnvöld hafi farið illa með rússneskumælandi minnihlutann, bannað honum að nota tungumál sitt og þrengt að honum á ýmsa lund. Jafnvel hafa rússnesk stjórnvöld talað um þjóðarmorð á Rússum í Úkraínu þótt engar sannanir hafi verið reiddar fram til stuðnings svo alvarlegum ásökunum. En umræðan hafði undið upp á sig og svo komu forsvarsmenn sjálfstjórnarhéraðanna Lugansk og Donetsk og lýstu yfir sjálfstæði og óskuðu eftir aðstoð Rússlands. Þannig má segja að íhlutun Rússlands í Donbas-héraðið hafi verið undirbyggð um nokkurt skeið.

Hver er staðan í dag? Hvað er fram undan?

„Eins og er þá má segja að við sem búum og störfum í Rússlandi séum í nokkurs konar biðstöðu, við vitum ekki hvernig mál munu þróast á næstu dögum og vikum og það er mjög erfitt að spá um framtíðina. En auðvitað vonar maður í lengstu lög að þessu hernaðarástandi ljúki sem fyrst og að viðræður aðilanna leiði til vopnahlés og helst friðarsamkomulags. En jafnvel þótt það tækist þá er hætt við að það taki langan tíma að byggja upp að nýju traust milli austurs og vesturs og að samskipti komist aftur í þokkalega eðlilegt horf. Því miður má reikna með að þessi vanhugsaði stríðsrekstur hafi langvarandi áhrif fyrir rússneskt samfélag og verði Rússlandi dýrkeypt á svo mörgum sviðum. Fyrir utan þær hörmulegu afleiðingar sem stríðið hefur fyrir Úkraínu og úkraínskt samfélag; svo sem mannfall, eyðileggingu og fólk á flótta. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -