Arnór Sveinsson jógakennari er viðmælandi Sölva Tryggvasonar í nýjasta hlaðvarpsþætti hans en Arnór gjörbreytti lífi sínu eftir skyndilegt banaslys frænda síns og náins vinar sem var með honum til sjós. Arnór hafði verið á sjó síðan hann mundi eftir sér, en eftir slysið fór hann á flakk um heiminn til að læra hugleiðslu, öndun- og kuldaþjálfun
„Eftir þetta hræðilega banaslys náfrænda míns og vinar var sjokkið það mikið að ég vissi að ég yrði að breyta lífi mínu. Hann var eldri en ég og ég leit mikið upp til hans, þannig að þetta var mikið högg. Eftir þetta áttaði ég mig á því að það væri meira í lífinu en að vera bara á sjónum og djamma og reykja gras þess á milli. Ég flaug til Taílands út í óvissuna og þar upphófst atburðarás, þar sem örlögin tóku í taumana og ég var eiginlega leiddur áfram. Ég endaði í litlum bæ í norðurhluta landsins, þar sem ég kynntist munki sem ég var svo lánsamur að fá að verja dýrmætum tíma með. Þar fór ég í djúpa innri vinnu, lærði hugleiðslu og fékk grunninn að því sem er nálgun mín í því sem ég er að gera í dag. Þessi munkur var minn fyrsti kennari og ég lærði gríðarlega mikið af honum. Hægt og rólega fór ég að átta mig á öllum hlutunum sem ég þarf ekki á að halda í lífinu og allt fór að verða einfaldara. Síðan þá hef ég ferðast víðs vegar um heiminn og sótt fjöldann allan af námskeiðum sem tengjast jóga, hugleiðslu og andlegri vinnu.“
Í þættinum ræðir Arnór um ýmislegt og má þar á meðal nefna neyslu, áreiti og snargeggjaðan Hollending.
„Ég fór 2017 að læra kuldaþjálfun í Póllandi. Ég vildi læra eitthvað sem væri meiri brú inn í andlega heiminn fyrir karlmenn. Þegar þú ert kominn með snargeggjaðan Hollending sem á alls konar heimsmet að hoppa ofan í kalt vatn er líklegra að þú náir eyrum karlmanna en bara með jóga og hugleiðslu. Þetta var frábær hópur og það myndaðist mikið bræðralag.“