Árshátíð borgarstjórnar Reykjavíkur þann 11. janúar síðastliðinn kostaði borgarbúa rúmlega 1,8 milljónir króna.
Árshátíð borgarstjórnar Reykjavíkur var haldin með pompi og prakt á Kjarvalsstöðum þann 11. janúar síðastliðinn en samkvæmt upplýsingum frá borginni voru 91 gestur á hátíðinni. Borgaði hver um sig 9.500 krónur í aðgangseyri, jafnt makar sem aðrir gestir. Eftirstandandi kostnaður vegna hátíðarinnar hljóðaði upp á 1.806.301 króna en sá kostnaður er reiknaður eftir að aðgangseyririnn hefur verið dreginn frá, samkvæmt upplýsingum frá borginni. Það þýðir að Reykjavíkurborg og þar með borgarbúar, greiða ríflega 1.8 milljónir fyrir árshátíð starfsmannanna.
Um var að ræða fyrstu og mögulega einu árshátíð Einars Þorsteinssonar, í stóli borgarstjóra Reykjavíkurborgar en nú standa yfir meirihlutaviðræður milli oddvita Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Flokks fólksins, Pírata og Sósíalsitaflokksins. Eins og frægt er orðið sprengdi Einar meirihlutann aðeins 17 dögum eftir að Dagur B. Eggertsson yfirgaf borgarpólitíkina fyrir Alþingi.