Bæði Leifur Garðarsson og Sævaldur Bjarnason starfa sem kennara í grunnskólum í Mosfellsbæ. Báðir hafa nýlega verið sakaðir um kynferðisglæpi og hrökkluðust úr störfum sínum vegna þess. Innan Facebook-hópsins Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu er vakin athygli á þessu og virðast íbúar í Mosfellsbæ óttaslegnir.
Leifur Garðarsson starfar sem sérkennari í Helgafellsskóla í dag. Mannlíf hefur ítrekað fjallað um mál hans en árið 2021 hrökklaðist hann úr starfi sem skólastjóri Áslandsskóla í Hafnarfirði. Það var eftir að hann hafði verið sendur í ótímabundið veikindaleyfi eftir að upp komst um óviðeigandi samskipti hans við leikmann meistaradeildar kvenna í körfuknattleik. Hann hafði starfað sem körfuboltadómari.
Það virðist ekki hafa verið einangrað atvik því Hafnarfjarðarbær staðfesti á sínum tíma að kvartanir höfðu borist vegna hans. Einnig birti stúlka sem hann þjálfaði skilaboð sem henni barst frá honum. Þau má sjá hér fyrir neðan.
Sævaldur Bjarnason starfar í dag sem kennari í Kvíslarskóla en mál hans er nýrra. Mál þeirra tveggja eru þó lík að því leyti að báðir störfuðu við að þjálfa konur í íþróttum. Sævaldur var þjálfari U18 landsliðs kvenna í körfubolta þar til nýlega. Síðasta sumar var ákveðið að senda hann ekki með liðinu til Grikklands þar sem stelpurnar tóku þátt í Evrópumeistaramótinu.
Hann var sakaður um óviðeigandi snertingar og hafa valdið vanlíðan meðal landsliðsins. Sara Líf Boama, landsliðskona í körfubolta, steig fram á Facebook í desember og skrifaði meðal annars:
„Þú snertir okkur á óviðeigandi hátt og varst almennt mjög óþægilegur. Ég mun aldrei gleyma hvernig þú lést mér líða. Hvernig þú rassskelltir mig bæði með flötum lófanum og þjálfaraspjaldinu en mest af öllu mun ég aldrei gleyma því þegar þú kemur aftan að mér á stóra vellinum í Finnlandi, rassskelltir mig tvisvar og segir svo glottandi og hlæjandi „nei ég ætlaði nú ekki að fara í rassinn á þér.““
Líkt og fyrr segir þá er vakin athygli á nýjum störfum Leifs og Sævalds innan Facebook-hópsins Baráttuhópur gegn ofbeldismenning. Ummæli einnar konu þar eru lýsandi fyrir umræðuna í heild sinni en hún skrifar: „Hvað er alltaf með svona fígúrur, hvort sem það eru kennarar, prestar eða what not, þetta fær bara að dullast í kerfinu!!“