Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Ásdís Rán hefur verið í viðskiptum frá 17 ára aldri: „Fólk er hætt að nenna að tala illa um mig”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ásdís Rán Gunnarsdóttir segist vera komin með mjög sterka skel eftir öll árin í sviðsljósinu. Ásdís, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist hlakka til að sýna á sér nýjar hliðar í forsetakapphlaupinu:

„Ég hef alltaf staðið með sjálfri mér og haft sjálfstraust og hugrekki, þannig að þegar ég fékk þessa hugmynd þurfti ég ekki að velta því neitt lengi fyrir mér að láta bara verða af því að bjóða mig fram til forseta. Mér finnst bara jákvætt að sem flestir bjóði sig fram, þannig að fólk hafi úr mörgum að velja og hver og einn geti valið sinn frambjóðanda. Þannig virkar lýðræðið. Þetta er kannski svolítill sirkus akkúrat núna, en svo munu þeir hæfustu lifa af og ætli þetta verði ekki 8-10 manns sem ná undirskriftunum af þessum 60-70 og þá verður komin betri mynd á þetta. Ég trúi því að ég verði í þeim hópi sem fer í gegnum meðmælaþröskuldinn og þá veit ég að ég fæ tækifæri til að sýna á mér hliðar sem fólk þekkir kannski ekki. Ég hef haft hag af því að fá alls konar athygli í gegnum tíðina og það þýðir að margir hafa verið með alls konar skoðanir á mér, en í raun og veru þekkir fólk mig ekki og ég veit að ég get sýnt á mér alveg nýja hlið sem mun koma fólki á óvart. Ég held að fólk þekki mig ekki neitt þó að það hafi séð fyrirsagnir í gegnum tíðina. Ég er alin upp í sveit og hef þurft að hafa fyrir lífinu og vera mjög sjálfstæð í öllu sem ég hef gert,“ segir Ásdís, sem segist hafa farið sínar eigin leiðir alveg síðan hún var unglingur og verið í eigin rekstri í áraraðir:

„Ég hef alltaf verið með mikið sjálfstraust og þorað að fara mínar eigin leiðir og ganga á eftir því sem ég vil. Ég hef verið viðloðandi viðskipti frá því að ég var 17-18 ára gömul. Þá byrjaði ég að sjá um alls konar viðburði og síðan stofnaði ég fyrirsætuskrifstofu út frá því. Ég sé það núna að það var líklega meira hugrekki og kraftur í mér en flestum jafnöldrum mínum á þessum tíma. Sumum fannst skrýtið að sjá stelpu á þessum aldri með viðskiptahugmyndir, en almennt fann ég að fólk virti mig fyrir hugrekkið og mér var yfirleitt alltaf tekið vel.“

„Ég vil koma til dyranna eins og ég er klædd og ég hef alltaf verið þannig. Ég er ekki með filter og segi hlutina eins og þeir eru. Ef einhver þarf að tala illa um mig þá verður bara að hafa það, ég ætla ekki að fara að ritskoða mig. Ég er komin með mjög sterka skel eftir öll þessi ár í sviðsljósinu. Þú þarft að hafa sterkar taugar til að geta verið á milli tannanna á fólki í öll þessi ár og ég veit að ég hef það. Ég veit hver ég er og þeir sem þekkja mig vita hver ég er og það er það sem skiptir mestu máli. En reyndar hef ég ekkert fengið neikvætt nýlega. Fólk er líklega hætt að nenna að vera með leiðindi í minn garð.“

Ásdís hefur um árabil verið stærstan hluta ársins í Búlgaríu og  það er augljóst að hún kann mjög vel við sig þar. Ásdís fór upphaflega til Búlgaríu með fyrrverandi manni sínum, knattspyrnumanninum Garðari Gunnlaugssyni. Hugmyndin var að lifa rólegu og þægilegu lífi, þar sem hann fengi athyglina, en hún sæi um heimilið. En mjög fljótt kom í ljós að framvindan ætti eftir að verða önnur:

„Það gerðist eiginlega á einni nóttu, að fjölmiðlar fengu mikinn áhuga á mér. Þegar myndirnar af mér fóru að veltast um í gulu pressunni varð ekki aftur snúið. Ég fékk strax mikla athygli og gat því fljótt búið til minn eigin feril. Ég fékk fljótt vel borgað fyrir þau verkefni sem ég tók að mér og þetta var eiginlega bara draumur í dós,“ segir Ásdís, sem enn dvelur mikið í Búlgaríu, enda fann hún nýverið ástina í örmum Þórðar Daníels Þórðarssonar, sem rekur fyrirtæki í Búlgaríu:

- Auglýsing -

„Ég sagði síðast þegar ég var í viðtali hjá þér að íslenskir karlmenn væru hræddir við mig, en hann var ekki hræddur. Hann býr í Búlgaríu, þannig að það hentar mjög vel að hann haldi mér þar með annan fótinn. Mér finnst Búlgaría frábært land og ég elska Búlgaríu. Mér hefur alltaf liðið vel þarna og og hef alltaf upplifað almenna velvild frá fólki.“

Eitt af því áhugaverðara og erfiðara sem Ásdís upplifði í Búlgaríu var þegar ein besta vinkona hennar, Ruja Ignatova, hvarf sporlaust árið 2017, eftir að hafa tengst fjársvikamáli sem vakti heimsathygli. Ruja var, þegar hún hvarf, orðin milljarðamæringur í gegnum rafmyntina OneCoin. Ásdís og Ruja voru í miklu sambandi allt þar til daginn sem sú síðarnefnda hvarf sporlaust og ekki hefur spurst til hennar síðan.

„Við urðum fljótt mjög góðar vinkonur og hún fjárfesti í fyrsta fyrirtækinu mínu í Búlgaríu. Undir það síðasta var hún orðin milljarðamæringur og líf hennar hafði breyst samkvæmt því. Ég var með henni síðustu tvo mánuðina áður en hún hvarf og þá vildi hún ekki umgangast nema örfáa. Þó að ég hafi auðvitað ekki haft hugmynd um hvað var í vændum, fann ég undir það síðasta að hún var orðin mjög vör um sig og óttaðist að fólk væri á eftir henni, en ég hélt að það væri bara af því að hún var orðin svo rosalega rík og í Austur- Evrópu eru miklu fleiri hættur fyrir ríkt fólk. En svo hvarf hún bara og ég hef ekkert heyrt frá henni síðan, né nokkur annar í kringum hana. Það bendir auðvitað allt til að hún sé bara dáin.“

- Auglýsing -

Þegar Ásdís lítur yfir farinn veg er henni efst í huga þakklæti yfir því hve margt hún hefur fengið að upplifa og hún segist ekki sjá eftir neinu.

„Mér finnst mikilvægast þegar maður horfir til baka, að geta sagt að maður hafi fengið tækifæri til að lifa lífinu til fulls og upplifa drauma sína. Það get ég sagt um sjálfa mig. Ég er búin að gera flest sem mig hefur langað að gera í gegnum tíðina. Ef líf mitt myndi enda á morgun myndi ég deyja sátt.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Ásdísi og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -