Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist vera kominn með þykkan skráp gagnvart allri þeirri umræðu meðal íslensku þjóðarinnar sem að honum snýr. „Ég er ekkert að vorkenna sjálfum mér en þessi umræða er alveg ömurleg,“ segir hann og heldur áfram að hvetja Íslendinga til að draga stórlega úr neyslu:
„Ég er kominn með frekar þykkan skráp. Það er ákveðinn hópur fólks sem telur það í lagi að drulla yfir fólk, embættismenn og ráðherra, með persónulegum svívirðingum. Ég er ekkert að vorkenna sjálfum mér en þessi umræða er alveg ömurleg. Það er of mikið í gangi. Mjög margir eiga pening til þess að eyða. Þegar ég var að tala um Tene þá var það að einhverju leyti gamanmál, en líka yfirlýsing um það hvernig íslenska þjóðin er að eyða sínum peningum,“ sagði Ásgeir í Morgunútvarpinu á RÚV.
Aðspurður hvort það væri mögulega frekar bankanum að kenna heldur en Tenerife-ferðum landans þegar kemur að hækkandi verðbólgu og eignaverði á húsnæðismarkaði hafði seðlabankastjórinn þetta að segja:
„Það er eðlilegt að okkur sé kennt um. Fólk hefur auðvitað mismikinn húmor. Ég nefndi Tenerife bara til þess að fólk tæki eftir því sem við erum að segja í Seðlabankanum. Hér er mikið kvart og tuð yfir stöðunni á Íslandi. Íslendingar eru ekkert vanir því að þeim sé sagt fyrir verkum. Þá er alveg sama hversu oft þessi þjóð hefur hlaupið fram úr sér, eytt peningum umfram efni og lent í allskonar veseni þess vegna, þá tekur hún því ekki vel að henni sé sagt til,“ segir Ásgeir og heldur áfram:
„Það er ákveðinn hópur af fólki á samfélagsmiðlum sem er í fullri vinnu við að móðgast yfir öllum hlutum. Það er alveg hægt að missa trúna á mannkyninu með því að fylgjast með þeim sem hafa hæst á samfélagsmiðlunum.“
Ásgeir bendir á að markmið Seðlabankans sé einfalt, að tryggja stöðuleika í hagkerfinu. Hann er miklar áhyggjur af því að Íslendingar séu að eyða alltof miklu og komandi hækkanir í kjarasamningum fari jafnvel í enn frekari eyðslu.
„Íslenska þjóðin þarf bara að læra að við búum í heimi sem er mjög óstöðugur. Fólk má auðvitað eyða peningunum sínum en það er mjög slæmt að fara svona inn í nýtt ár. Ég þarf að sjá hvort að þessi peningar fari bara strax í neyslu. Það er hægt að semja um hvaða krónutölur sem er en það eru bara pappírspeningar.“