Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir bjargaði mannslífi í gær þegar matur stóð í konu á veitingastað.
Fráfarandi háskóla-, iðnaðar – og nýsköpunarráðherrann Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir bjargaði lífi konu í gær en báðar voru þær gestir á veitingastaðnum Kastrup RVK. Þetta hefur RÚV eftir Jóni Mýrdal, eiganda veitingastaðarins. Matur hafi staðið í konu og hún ekki getað andað.
„Enginn vissi hvað hann átti að gera og fólk hljóp í hringi,“ sagði Jón í samtali við fréttastofu RÚV seint í gærkvöld. „Áslaug varð vör við þetta og gekk bara beint í verkið.“
Að sögn Jóns var hringt í sjúkrabíl og fékk konan skoðun og aðhlynningu á vettvangi. Hún hafi kvartað yfir að vera svolítið aum en að öðru leyti hafi líðan hennar verið góð. Segir hann að hún hafi verið ákveðin í að láta atvikið ekki koma í veg fyrir að hún gæti nýtt miða á tónleika sem hún átti.
„Það þurfti átak til að ná þessu úr henni svo hún var dálítið aum eftir þetta en hún var komin í sparigallann og ætlaði bara að fara þegar sjúkramenn voru farnir,“ sagði Jón.
Jón sagði að það hafi verið samdóma álit viðbragðsaðila að Áslaug Arna hafi brugðist hárrétt við og að öllum líkindum bjargað lífi konunnar. Sagði hann mikið fát hafa komið á aðra gesti staðarins og að ekki hefði mátt á tæpara standa.
„Magnað vegna þess að þetta var náttúrulega seinasti dagurinn hennar sem ráðherra og hún endaði kvöldið svona, bjarga mannslífi. Skilaði lyklunum að ráðuneytinu og bjargaði svo mannslífi.“