Í gær var full biðstofa á bráðamóttökunni, hátt í hundrað sjúklingar voru skráðir á deildina að bítast um þrjátíu laus meðferðarstæði. Meira en fimm klukkustunda bið var í sumum tilfellum eftir þjónustu þannig að mikil ringulreið var á svæðinu og starfsfólk undir gríðarlegu álagi.
Ástandið á bráðamóttöku Landspítalans er grafalvarlegt. Fyrr í dag greindi RÚV frá því að fjórir hjúkrunarfræðingar hafi sagt upp störfum á deildinni vegna langvarandi álags og lélegs aðbúnaðar.
DV ræddi við Borislav Bukarica sem hefur verið búsettur hér á landi í 21 ár ásamt eiginkonu sinni, en þau eru bæði frá Serbíu að ástandið væri grafalvarlegt.
Borislav segir að nú sé nóg komið: „Ég er búinn að vera hérna á Íslandi í 21 ár og þetta verður bara verra og verra með hverju ári. Fyrir 10 árum síðan var bara tveggja eða eins tíma bið. Ég er með margar skyldur, ég er með börn í skóla,“ segir hann.
„Ég þurfti að bíða og bíða og bíða. Maður veit ekki hversu lengi eða eftir hverju maður er að bíða. Allir eru bara að bíða og enginn segir neitt. Hundrað manns í biðstofunni. Ég er kannski útlendingur, en ég er líka Íslendingur. Ég tala ekki bara mitt mál heldur íslensku líka. Við verðum að laga þetta, þetta gengur ekki lengur,“ segir Borislav Bukarica.
Greindist með krabbamein og töldu að meinið væri farið að láta á sér kræla
Hjónin fóru á bráðamóttöku Landsspítalans í gær vegna hræðilegra verkja sem eiginkona hans hefur verið með síðustu þrjá mánuði. Hún greindist með krabbamein fyrir þremur árum og hjónin grunaði að meinið væri farið að láta á sér kræla og mögulega á hættulegri stað en áður. Borislav segist blöskra hversu lengi þau þurftu að bíða eftir aðstoð og kveðst hafa upplifað mikið skipulagsleysi.
Hann segir þau hjón hafa átt mjög torvelt með að fá upplýsingar frá hjúkrunarfræðingum. Að sögn Borislavs kom enginn til þeirra í marga tíma og svo hafi hjúkrunarfræðingur tekið blóðsýni úr eiginkonu hans þar sem hún sátu á biðstofunni og sent þau svo heim. „Hún hefði getað dáið á meðan við biðum hérna eftir lækni,“ segir Borislav í samtali við DV um málið.
„Ég spurði nokkrum sinnum um að fá að fara bara beint inn að hitta lækni. En það var ekki hægt og eftir langa bið kom loks hjúkrunarfræðingur og tók blóðprufu.
Hjónin þurftu að mæta aftur á spítalann í morgun því eiginkona Borislav þurfti einnig að fara í þvagsýnatöku og ómskoðun, og þeim rannsóknum lauk ekki fyrr en rétt fyrir hádegi í dag. „Umhyggja fyrir fólki og samkennd eru framandi setningar hér. Ég er vonsvikinn með heilbrigðiskerfið hér.“ segir hann.
Þá segir Borislav að skipulagið á spítalanum sé hræðilegt. „Ég er að vinna á sjúkraheimili og ég veit hvað skipulag er. Þetta er bara óþolandi. Það eru líka hjúkrunarfræðingar hérna [hjá Landsspítalanum] sem eru annað hvort hættir hérna, eða ætla að hætta. Ég fór í gær og mig langar bara aldrei að koma aftur.“