Ástþór Magnússon hefur eytt langmestu í auglýsingar á samfélagsmiðlum Meta af forsetaframbjóðendunum. Þetta kemur fram í nýjum mælingum auglýsingastofunnar og framleiðslufyrirtækisins SAHARA.
Á vef SAHARA má sjá niðurstöður frá mælingum fyrirtækisins á því hversu miklu fé forsetaframbjóðendur verja í auglýsingar á miðlum Meta, en það er google, Facebook, Instagram og fleiri miðlar, síðustu 90 daga.
Eftirfarandi texta má finna á síðu fyrirtækisins:
SAHARA hefur sett upp mælaborð sem fylgist með því í rauntíma hvað frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru að gera á Google, Facebook og öðrum samfélagsmiðlum. Mælaborðið, sem er beintengt við gögn hjá Google og Meta, er öllum aðgengilegt á slóðinni sahara.is/
Auk samanburðar á því hve miklu fé frambjóðendur verja í auglýsingar á miðlum Meta, sýnir mælaborð SAHARA m.a. upplýsingar um þróun á fjölda fylgjenda allra frambjóðenda á samfélagsmiðlum og hvernig áhugi er á viðkomandi, byggt á leitum í leitarvél Google.
Samkvæmt mælingum SAHARA hefur Ástþór Magnússon eytt lang mestu fé í auglýsingar á miðlum Meta eða um 7,8 milljónum króna. Næst kemur Halla Hrund Logadóttir sem eytt hefur um 519.5 þúsund krónum en nafna hennar Tómasdóttir er þriðji frambjóðandinn á listanum en hún hefur eytt um 508 þúsund krónum í auglýsingar á miðlunum. Jón Gnarr hefur svo eytt 504,7 þúsund krónum, Baldur 411,4 þúsund krónum, Helga Þórisdóttir 338,2 þúsund og Katrín Jakobsdóttir 237 þúsund krónum.
Þrír neðstu frambjóðaendurnir á listanum hafa eytt sáralitlum pening í auglýsingar á samfélagsmiðlunum en Arnar Þór Jónsson hefur aðeins eytt 23.700 þúsund krónum, Viktor Traustason hefur eytt 9.800 krónum. Lestinar rekur ísdrottningin Ásdís Rán Gunnarsdóttir, sem samkvæmt mælingum SAHARA hefur aðeins eytt 130 krónum í auglýsingar á samfélagsmiðlunum. Af einhverjum ástæðum vantar þau Steinunni Ólína Þorsteinsdóttur og Eirík Inga Jóhannsson á lista fyrirtæsins en mögulega þýðir það að þau hafi ekki eytt krónu í auglýsingar á miðlunum.
Hér má sjá listann: