Atli Þór Fanndal rífur Fréttastofu RÚV í sig fyrir að minnast ekki einu orði á frétt Heimildarinnar um fjárfestinn sem reyndi að kaupa frambjóðanda Miðflokksins.
Framkvæmdarstjóri Íslandsdeildar Transparency International, Atli Þór Fanndal gagnrýnir Fréttastofu RÚV harðlega fyrir að minnast ekki á það sem hann kallar „frétt dagsins“ sem birtist í morgunsárið á vef Heimildarinnar. Í fréttinni er sagt frá tilraun fjárfestisins Leós Árnasonar til að kaupa pólitískan stuðning frá frambjóðanda Miðflokksins, Tómasi Ellerti Tómassyni.
Í færslu sinni segir Atli Þór að Fréttastofa RÚV sé „hætt að nenna að fela áhugaleysi sitt á stjórnmálum“ og bætti við: „Þetta er hreinlega fyndinn aumingjaskapur þótt maður eigi ekki að hlæja.“
Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:
„Það er eiginlega bara fyndið að enn hefur Fréttastofa RÚV ekki minnst á frétt dagsins sem er augljóslega sú að til er mynd af manni að bjóðast til að kaupa kjörinn fulltrúa og flokk. Það er meira að segja mynd og peningarnir sem um er að ræða tengjast Samherja. Fréttin birtist klukkan sex í morgun og vitnað hefur verið í umfjöllun Heimildarinnar hér og þar. Fréttastofa RÚV er hætt að nenna að fela áhugaleysi sitt á stjórnmálum. Þetta er hreinlega fyndinn aumingjaskapur þótt maður eigi ekki að hlæja. Það er svo lítil virðing borin fyrir hlutverkinu að meira að segja tilraunir til að kaupa stjórnmálamenn fá ekki lélega afgreiðslufrétt svo hægt sé að þykjast eins og áhugi sé á fréttum.“