Atli Þór Fanndal svarar Frosta Logasyni og Eldi Ísidor Deville í nýrri færslu á Facebook. Þar talar hann um Ku Klux Klan í samhengi við sniðgöngu á Harmageddon.
Framkvæmdarstjóri Íslandsdeildar Transparency International, Atli Þór Fanndal, svarar myndskeiði úr hlaðvarpsþætti Frosta Logasonar, Harmageddon, sem birtist á YouTube á dögunum, í harðorðri færslu á Facebook. Í myndskeiðinu segir Frosti frá aðferðum aðgerðasinna sem berjast gegn Samtökunum 22, þar sem Eldur Ísidor Deville gegnir formennsku en hringt var í tvo staði sem ætluðu að hýsa málstofu Samtakanna 22, og þeim hótað, að sögn Eldar. Aflýstu báðir staðirnir viðburðinum og fór svo að Samtökin 22 héldu málstofuna í sal Miðflokksins. Frosti sagði einnig frá því að sömu aðgerðarsinnar hafi hringt í kostanda Harmageddon og haft í hótunum við hann, þar á meðal þingkona.
Sjá einnig: Segir þingkonu hafa hótað kostanda: „Grafalvarlegt að kjörnir fulltrúar taki þátt í slíkum fasisma“
Þessu svarar Atli Þór en hann segir sniðganga vera varða tjáningu. Nefnir hann Ku Klux Klan í því samhengi.
„Baráttumenn tjáningarfrelsisins mættu alveg muna að sniðganga er tjáning. Það að versla ekki við fyrirtæki sem styrkir KKK og hvetja til sniðgöngu þessa fyrirtækis er varin tjáning,“ skrifaði Atli Þór í færslunni og bætti við: „Kannski finnst þeim það subbulegt en innan ramma tjáningafrelsis er það algjörlega“
Á öðrum stað í færslunni segir Atli „ofsóknarbrjálæði öfgahægrimanna“ vera ansi þreytt. „Það er kannski subbulegt í huga sumra að kalla eftir sniðgöngu en þetta bölvaða ofsóknarbrjálæði öfgahægrimanna og Qanon fiktara er orðið alveg gasalega þreytt. Þetta heitir kjörbúðalýðræði og þar til nýlega var það beinlínis stefna Valhallar að veikja allar reglur því og tæta í sundur samfélagssáttmálann enda gæti hinn lýðræðislegi markaður svelt það sem ekki væri æskilegt.“ Þá segir Atli Þór að slaufun hafi verið stunduð á Íslandi í fjöldi ára af hægrinu. „Hér á landi hefur verið stunduð miskunnarlaus slaufun árum saman en allt í einu þegar ungt fólk notar tólið sem notað var sem rök gegn öllum reglum og hættir að rítvíta kvenfyrirlitningu eða sendir póst á smásölufyrirtæki um að styðja ekki hatur þá er þriðja heimstyrjöldin komin. Give me a fucking break.“
Í lokaorðunum segir Atli Þór að hér á landi sé heilt vistkerfi í kringum það „blæti“ að tala gegn transfólki, feminisma, góða fólkinu og fleira. „Þetta stanslausa menningarstríð gegn feminisma, góða fólkinu, ungu fólki í miðbænum sem drekkur froðukaffi eða transfólki er allt distraction. Hér á landi er heilt ecosystem í kringum þetta blæti sem vælir allan sólarhringinn alla daga doxxandi og hótandi þeim sem þau hafa skrímslavætt.“
Hér má lesa alla færsluna:
„Baráttumenn tjáningarfrelsisins mættu alveg muna að sniðganga er tjáning. Það að versla ekki við fyrirtæki sem styrkir KKK og hvetja til sniðgöngu þessa fyrirtækis er varin tjáning. Kannski finnst þeim það subbulegt en innan ramma tjáningafrelsis er það algjörlega. Sama á við um að nenna ekki að fylgja einhverjum á Twitter og hvetja fólk til að fara ekki á kvikmynd með manni sem samdi nauðgunarvísur um konur er líka tjáning. Það er kannski subbulegt í huga sumra að kalla eftir sniðgöngu en þetta bölvaða ofsóknarbrjálæði öfgahægrimanna og Qanon fiktara er orðið alveg gasalega þreytt. Þetta heitir kjörbúðalýðræði og þar til nýlega var það beinlínis stefna Valhallar að veikja allar reglur því og tæta í sundur samfélagssáttmálann enda gæti hinn lýðræðislegi markaður svelt það sem ekki væri æskilegt. Hér á landi hefur verið stunduð miskunnarlaus slaufun árum saman en allt í einu þegar ungt fólk notar tólið sem notað var sem rök gegn öllum reglum og hættir að rítvíta kvenfyrirlitningu eða sendir póst á smásölufyrirtæki um að styðja ekki hatur þá er þriðja heimstyrjöldin komin. Give me a fucking break. Cancel culture er uppfinning hægrisins til að fara athygli frá því hvernig þeir hafa kerfisbundið þrengt af gagnrýnum röddum. Tilraun til að gera bláhærða aðgerðarinna að stærstu hættunni frekar en dómsmálaráðherra sem kastar fólki á götuna nú eða útgerðarfyrirtæki sem fangaði dóms og sjávarútvegsráðherra Namibíu. Þetta stanslausa menningarstríð gegn feminisma, góða fólkinu, ungu fólki í miðbænum sem drekkur froðukaffi eða transfólki er allt distraction. Hér á landi er heilt ecosystem í kringum þetta blæti sem vælir allan sólarhringinn alla daga doxxandi og hótandi þeim sem þau hafa skrímslavætt.“