„Nyjavinbudin.is er bresk vefverslun með áfengi á allt að 50% betra verði, við sendum heim samdægurs og fólk getur sótt til okkar sama dag.“
Svo hljóðar upphaf færslu Sverris Einars Eiríkssonar, en í henni auglýsir hann áfengisnetverslun sína, sem valdið hefur nokkru fjaðrafoki í umræðunni um einokun og frelsi á áfengismarkaðnum.
Í færslu sinni segir Sverrir verslunina stöðugt vera að bæta við sig vörum, en að hann vilji gjarnan fá uppástungur neytenda að vörum sem þeim þyki ómissandi. Verslunin muni svo gera sitt besta í að koma til móts við ábendingarnar.
Hvorki meira né minna en 345 ummæli hafa verið skrifuð við færsluna þegar þessi frétt er rituð.
Neytendur keppast þar við að vekja athygli á sínum uppáhalds áfengu veigum og Sverrir svarar mörgum athugasemdunum og tekur vel í tillögurnar.
Þó eru margir sem nýta tækifærið og gagnrýna verslunina eða sýna vanþóknum sína með einum eða öðrum hætti.
„Er þetta að breytast í áfengis síðu? Ég því mótfallinn,“ segir Einar til dæmis.
Sumir matgæðingar síðunnar telja að þarna séu reglur hópsins, sem leggja blátt bann við auglýsingum, þverbrotnar. Í reglunum segir:
„Auglýsingar bannaðar án þess að hafa samband við admin.“
Sverrir kærir sig kollóttan og svarar með eftirfarandi hætti:
„Þetta smellpassar.“
Aðrir benda þó á að þarna sé um að ræða færslu sem greinilega veki áhuga og ánægju meðlima hópsins og því ætti að leyfa henni að standa.
„Það munar 0,4%, það er nú ekki mikið“
Bjarni er óánægður með að Sverrir skuli bera saman verð á bjórnum Stellu Artois í ríkinu og þeirri Stellu Artois sem netverslunin selur. Þetta sé ekki sama varan. Stellan sem seld sé í ríkinu sé með 5,0 prósent áfengismagn á meðan Stellan sem Sverrir selur sé með 4,6 prósent áfengismagn. Það snúist ekki bara um áfengisprósentu, heldur sé bragðið ekki það sama af þessum tveimur bjórum.
„Berið ykkur saman við vöru sem er langt í frá að vera sama varan og þykist svo vera miklu ódýrari. Hversu fyndið. Verið með sömu vöru í verðsamanburð ykkar,“ segir Bjarni.
Sverrir blæs á þessar aðfinnslur Bjarna:
„Það kemur nú skýrt fram prósentan, það munar 0,4% það er nú ekki mikið.“
Birgitta nokkur bendir Sverri á reglugerð um bann við áfengisauglýsingum:
„Sæll Sverrir Einar Eiríksson. Það er kannski eitthvað í þessari reglugerð sem þú átt eftir að lesa.“
Í kjölfarið upphefjast nokkrar rökræður meðlima Matartips um innihald þessarar reglugerðar. Sumir vilja meina að þar sem Facebook sé erlend síða sé í góðu lagi að auglýsa áfengi inni á hópum þar. Aðrir segja það alrangt og að þegar hópar séu íslenskir eigi reglugerðin við.
Hvar er admin?
Sigga nokkur stígur stærra skref í að tjá óánægju sína með færslu Sverris:
„Ef þú gætir sleppt því að auglýsa hérna þá væri það fínt. Enda bannað að auglýsa áfengi og svo hef ég ekki áhuga á að sjá andlitinu þínu bregða fyrir miðað við sögur sem ég hef heyrt.“
Stefán tekur undir það:
„Bara hárrétt hjá Siggu Lilju og hann er líka með á sig kæru frá ÁTVR.
Hvar er ADMIN ????????“