Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Átök, frumkvæði og kynlíf – Hvað segir Marsmerkið þitt um þig?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Samkvæmt stjörnuspekinni hefur plánetan Mars mikil áhrif á það hvernig við hegðum okkur sem kynverur. Fyrir marga eru Venus og Mars órjúfanleg heild þegar kemur að þessu, en aðrir stjórnast meira af annarri hvorri plánetunni í rómantískum samskiptum. Mars stjórnar því líka hvernig við nálgumst verkefni og hvenær við finnum sprengikraft og ástríðu. Einnig hvernig við reiðumst og gerum atlögu – orkan er hrá og frumstæð. Þegar við stjórnumst af orku Mars erum við staðföst, beinskeytt, ástríðufull og metnaðargjörn. Einstaklingur með sterkan Mars í stjörnukorti sínu er yfirleitt nokkuð herskár – hann forðast í það minnsta ekki átök.

Hægt er að láta reikna út Marsmerki sitt á síðum á borð við Co-Star og Cafe Astrology, ásamt mörgum öðrum.

 

Hrútur

Sá sem er með Mars í Hrúti er afar ástríðufullur, hvatvís og orkumikill. Það er auðvelt fyrir þennan einstakling að finna til hvatningar og láta til skarar skríða í þeim verkefnum sem vekja áhuga hans. Honum þykir hins vegar einstaklega erfitt að halda sig að einhverju sem hann hefur ekki ósvikinn áhuga á.

Allt gerist hratt hjá Mars-Hrúti. Ákvarðanir eru teknar snögglega og ekki litið um öxl. Þessi einstaklingur elskar að byrja á einhverju nýju og hann hleypur ávallt í átt að áskorunum. Barnsleg orka Hrútsins er áberandi og kemur fram í einlægni, en getur líka þýtt að hann eigi það til að vera dónalegur og óþolinmóður í samskiptum.

Þessi einstaklingur býr yfir mikilli kynorku og er frekar hrár í kynlífi. Það er fremur auðvelt að koma honum til og hann laðast að fólki sem er beinskeytt og með sterka nærveru. Mars-Hrútar kunna að meta einlægni og að elskhugi þeirra gefi sig þeim á vald. Þeim þykir gaman að hvatvísum ástarleikjum og vilja gjarnan koma sér beint að efninu – þeir geta orðið dálítið óþolinmóðir í löngum forleikjum og eiga það jafnvel til að vera svolítið sjálfselskir á þessu sviði. Þeir hafa oft gaman af eltingarleik í tilhugalífinu.

- Auglýsing -

Þeir sem eru með Mars í Hrúti eru oft frekar skapstórir; þeir eru fljótir að reiðast og skap þeirra getur verið eldfimt, en eins eru þeir fljótir að jafna sig. Þetta eru ekki einstaklingar sem fara í fýlu í langan tíma eða eru langræknir. Helst vilja þeir bara rífa plásturinn af og halda svo áfram.

 

Naut

Fólk með Mars í Nauti er staðfast og fer í gegnum lífið af rólyndi og öryggi. Það er enginn æsingur í því. Þetta fólk er hins vegar þrjóskt og þegar það hefur tekið ákvörðun getur reynst þrautin þyngri að sveigja það. Mars-Nautið er metnaðargjarnt en trúir á að ná markmiðunum rólega, stöðugt og yfirvegað. Hér er ekki anað að neinu. Það metur eigur sínar, heimili og þægindi mikils og slíkir hlutir virka því oft sem drifkraftur á það. Þetta er ekki fólk sem heldur ótal boltum á lofti í einu, heldur vill það frekar einbeita sér að fáum hlutum og klára þá með stæl.

- Auglýsing -

Mars-Naut sem kynverur eru nautnafull og vilja taka sér tíma í hlutina. Þau kunna að meta næma elskhuga og hafa oft gaman af því að blanda einhvers konar dekri eða mat inn í kynlíf. Dæmi um þetta geta verið rómantískar baðferðir, nudd og ef til vill súkkulaði og jarðarber. Að sama skapi eru naut athugulir elskhugar sem kunna sannarlega að ýta á rétta takka þeirra sem njóta samvista við þau.

Þetta fólk getur verið dálítið langrækið. Það reiðist ekki hratt, en skapið í þeim er seigt og þau eru oft lengi að jafna sig. Þau geta sannarlega orðið mjög reið ef þeim er storkað um of – og þá er best að halda sig fjarri. Það skiptir öllu máli að bregðast trausti þeirra ekki á nokkurn hátt. Þá getur verið erfitt að eiga afturkvæmt.

 

Tvíburi

Sá sem er með Mars í Tvíbura er forvitinn og athugull. Hann nálgast viðfangsefni ávallt eins og rannsakandi og hefur einstaklega gaman af því að ræða mál fram og til baka. Líflegar rökræður eru honum mjög að skapi. Þegar hann fær áhuga á einhverju steypir hann sér á kaf ofan í það og getur eytt í það ómældum tíma og orðið ansi fróður um viðfangsefnið. Hann hefur mikla þörf fyrir að skoða mál út frá öllum hliðum og getur sett sig í spor fólks með ólíkar skoðanir. Það er honum mjög mikilvægt að skilja – helst allt.

Hann hefur gaman af fólki og vill eiga kost á samskiptum við ólíka einstaklinga. Hann kann illa að meta bergmálshella. Mars-Tvíburar kunna vel við það þegar margt spennandi er á seyði í kringum þá og fá orku úr því. Þegar ekkert er um að vera og lífið óspennandi og litlaust eru þeir gjarnan uppgefnir og verða þungir.

Sem kynvera er Mars-Tvíburinn forvitinn og fær örvun sína aðallega andlega og vitsmunalega. Örvun og spenna byrjar löngu áður en kemur að hinni líkamlegu athöfn kynlífsins. Hnyttin stríðni, djúpar samræður og það að TALA um kynlíf er allt eitthvað sem kemur honum til. Hann er líklegur til þess að kunna að meta lestur á erótískum sögum. Hann laðast að kláru fólki sem kemur á óvart.

Mars-Tvíburinn getur verið dálítið dyntóttur og hann á það til að rífast og vera þrætugjarn. Stundum hefur hann samt bara gaman af því að ýta á takka fólks til að fá viðbrögð og kanna hvort eitthvað spennandi geti ekki komið út úr því. Hann hefur ástríðu fyrir orðum og þegar hann reiðist er hann sérfræðingur í að nota orð sín sem vopn á andstæðinginn.

 

Krabbi

Mars-Krabbinn hefur sterka samkennd og er viðkvæmur. Honum er afar umhugað um tilfinningar annarra og er bæði næmur og blíður. Hlutirnir gerast ekki sérlega hratt hjá honum en finni hann ástríðu fyrir verkefni kafar hann djúpt ofan í viðfangsefnið. Kveikja hans er yfirleitt tilfinningalegs eðlis. Hann hefur mikla þörf fyrir aga og reglu til að þrífast sem best og vera í jafnvægi. Hann er hjálpsamur og hefur sefandi nærveru.

Sem elskhugi býr þessi einstaklingur yfir framangreindri næmni og blíðu. Hann vill taka sér tíma og setur alla sína athygli á elskhuga sinn. Hann þarf að finna fyrir öryggi í kynlífi og treysta þeim sem hann er með. Hann hefur mikla þörf fyrir að vernda elskhuga sinn og þeir sem leyfa honum það er fólkið sem passar honum best. Þessi einstaklingur laðast að fólki sem er næmt, traust og tilfinningaríkt.

Skapið í Mars-Krabbanum getur verið svolítið þungt og hann fer auðveldlega í vörn. Ef honum finnst að sér vegið á hann það til að vera hörundsár og svolítill fýlupúki. Það eru engar sprengingar í skapi hans og það getur stundum tekið tíma að átta sig á því að hann sé reiður. Hann er mjög gjarn á að vera passífur/agressífur. Hann á stundum erfitt með að setja fólki mörk og getur verið meðvirkur.

 

Ljón

Fólk með Mars í Ljóni er sjálfsöruggt, glaðlynt og orkumikið. Þessir einstaklingar eru almennt hrifnir af athygli og eiga auðvelt með að heilla aðra. Þeir hafa mikið aðdráttarafl og það er algengt að þeir taki að sér einhvers konar leiðtogahlutverk. Þeir eru afar metnaðargjarnir. Sköpun er þessum einstaklingum mjög mikilvæg – þeir nærast á henni og eru yfirleitt mjög hugmyndaríkir. Þetta fólk er uppfullt af ástríðu og hefur mikinn viljastyrk – þegar það ætlar sér eitthvað er fátt sem stöðvar það.

Þegar kemur að kynlífi og kynorku er Mars-Ljónið opið og það getur verið töfrandi tilfinning að hafa óskipta athygli þess á sér. Það er auðvelt að koma því til, það hefur mikið úthald og vill að kynlíf sé skemmtilegt. Mars-Ljónin vilja helst að ást (í það minnsta rómantík) og kynlíf séu samofin – þannig líður þeim best. Þau taka sig ekki of alvarlega og kunna að meta elskhuga sem gerir það ekki heldur. Þeim þykir sjálfsöryggi heillandi og vilja mikla athygli og natni frá elskhuga sínum. Þau laðast gjarnan að frekar sterkum karakterum. Þau kunna samt ágætlega við að fá á einhvern hátt að vernda þann sem þau eru með.

Mars-Ljón þurfa að vera meðvituð um að láta skapið ekki hlaupa með sig í gönur. Það geta orðið miklar sprengingar þegar þau reiðast og þau eiga það til að vera bæði hvatvís og dramatísk. Þau eru afar stolt.

 

Meyja

Mars-Meyjan er dugnaðurinn uppmálaður. Hún getur haldið mjög mörgum boltum á lofti í einu og er einstakt leynivopn í flestum verkefnum. Hún er metnaðargjörn og nákvæm. Tímastjórnun hennar er upp á tíu og þetta er ekki einstaklingur sem skilar af sér verkefnum of seint. Hún setur sér markmið og nær þeim.

Sem kynvera er hún jarðbundin og flink í að finna út hvað það er sem elskhugi hennar þarfnast. Kynlíf er engin undantekning í nákvæmni hennar. Eins og í öðru leggur hún hart að sér í því til að ná árangri og metnaður hennar fylgir henni ávallt inn í svefnherbergi. Hún á það þó svolítið til að setja sjálfa sig og eigin unað í annað sæti. Oft mætti hún líka slaka svolítið á þegar kemur að kynferðislegum tengingum og hætta að ritskoða sig. Það myndi hjálpa henni heilmikið að taka oftar áhættu og treysta á það sem hún hefur fram að færa.

Þessi manneskja gerir stundum fullmiklar kröfur á fólkið í kringum sig, er gagnrýnin og á það til að missa sig svolítið í tuð og nöldur. Hún er oft áhyggjufull.

 

Vog

Manneskjur með Mars í Vog sækjast eftir friði og réttlæti í lífinu. Þær eru afar heillandi. Þær vilja hafa hlutina í jafnvægi og vinna best þegar þeim finnst jafnvægi vera í kringum þær og innra með þeim. Þær eru hins vegar bæði óákveðnar og eiga það til að fresta hlutum fram á síðasta dag (eða klukkutíma). Þetta getur síðan gert þær stressaðar.

Mars-Vogir finna sig vel í samskiptum við aðra og hafa einlægan áhuga á fólki. Þeim þykir gaman að ræða málin og kynna sér ólíkar skoðanir. Þær eru oft góðir sáttasemjarar og eru diplómatískar í eðli sínu.

Mars-Vogir laðast að fáguðum og klárum einstaklingum. Þær leggja mikla áherslu á að veita elskhuga sínum unað og eru mjög gefandi en ætlast til þess sama á móti. Þær vilja fá að breytast og þroskast í kyntjáningu sinni og kynlíf í samböndum þeirra þarf sömuleiðis að vaxa. Andrúmsloft og orka skiptir þær miklu máli í svefnherberginu og þær eru fljótar að detta úr stuði ef eitthvað er ekki „rétt“.

Mars-Vogir eru átakafælnar og geta því stundum verið dálítið lúmskar þegar þær nálgast þrætumál. Þær eru gjarnan passífar/agressífar.

 

Sporðdreki

Einstaklingur með Mars í Sporðdreka nálgast hugðarefni sín af mikilli ákefð og ástríðu. Hann er afar rannsakandi og vill fara á dýptina. Hann er ákveðinn og um leið og hann veit hvað hann ætlar sér stoppar hann ekki fyrr en það er í höfn. Í honum er mikill drifkraftur og hann nær yfirleitt þeim mörgu og háleitu markmiðum sem hann setur sér. Mars-Sporðdrekar búa yfir mikilli herkænsku og eru afar greinandi. Þeir hugsa yfirleitt marga leiki fram í tímann. Þeir virðast oft ískaldir á yfirborðinu og eru með gott pókerfés.

Þessir einstaklingar eru yfirleitt í miklum tengslum við eigin kynveru og hafa mikla kynlöngun. Þeir eru lostafullir og næmir, og þurfa á ákefð að halda frá elskhuga sínum. Í kynlífi er ekkert tabú og úthaldið er mikið. Raunar eru þeir oft spenntir fyrir þeim hliðum kynlífsins sem eru á einhvern hátt tabú eða óhefðbundnir. Ekki miklar vanillur, sem sagt. Þeir eru oft ögrandi, bæði kynferðislega og almennt.

Það er mjög mikilvægt fyrir Mars-Sporðdreka að losa um orku, bæði kynorku og hreyfiþörf. Annars geta þeir orðið ansi óánægðir. Þeir eru með stórt skap, þótt það sé ekki með sama sprengikraft og skapið í Ljóni eða Hrúti. Skap þessara einstaklinga er þyngra og seigara. Þeir geta verið reiðir lengi og eru gjarnir á langrækni.

 

Bogmaður

Mars-Bogmenn eru glaðlyndir, opnir og einstaklega bjartsýnir. Þeir nálgast viðfangsefni sín af forvitni og hafa gaman af því að læra nýja hluti. Helst myndu þeir vilja ferðast út um allan heim og læra lexíur sínar á leiðinni. Þeir fara ófeimnir inn í nýjar aðstæður og búa yfir miklu sjálfsöryggi. Þeir eru hugmyndaríkir og það hentar þeim vel að byrja á nýjum verkefnum – hins vegar eru þeir ekki alltaf þeir bestu í að fylgja hugmyndunum eftir og klára verkefnin.

Það getur stundum reynst þessu fólki þrautin þyngri að skuldbinda sig í samböndum. Það þarf oft töluverðan tíma til að hlaupa af sér hornin og það er ekki óalgengt að það eigi þá fleiri en einn elskhuga í einu.

Þeir sem eru með Mars í Bogmanni verða gjarnan spenntir fyrir kláru fólki og beittar og vitrænar samræður koma þeim til. Þetta eru ástríðufullir elskhugar sem kunna að meta fjör og húmor í kynlífi. Þeim líkar ekki mikill alvarleiki.

Þolinmæði er ekki ein af sterku hliðum Mars-Bogmanna. Allt þarf helst að gerast strax og þeim dettur það í hug. Þeir eru með dálítið eldfimt skap og þegar þeir verða reiðir vilja þeir helst flýja af hólmi og beina huganum eitthvert allt annað. Fyrir þá er hreyfing afar góð reiðistjórnunaraðferð. Þrátt fyrir að elska vinalegar rökræður eiga þeir það til að taka því persónulega þegar einhver er ekki sammála þeim. Þeir hugsa hlutina ekki endilega alveg út í gegn eða kynna sér þá til fullnustu áður en þeir mynda sér afar sterka skoðun – sem þeir eru til í að standa með og rökræða út í hið óendanlega.

 

Steingeit

Orka Mars-Steingeita er einbeitt og sterk. Þær eru einstaklega metnaðargjarnar og þegar þær ákveða eitthvað er fátt sem fær stöðvað þær. Þær búa yfir mikilli herkænsku og skipuleggja sig vel. Það er stöðugleiki yfir þeim; þeim tekst oft að halda ró sinni í erfiðustu aðstæðum og þeim virðist alltaf vera fært að taka kaldar ákvarðanir, óháð tilfinningalegu ástandi. Þetta þýðir ekki að þær séu tilfinningasnauðar, heldur eru þær einfaldlega góðar í að temja tilfinningahliðina og viðbrögð sín. Mars-Steingeitur hafa mikla þörf fyrir að vera við stjórn, þær þrífast á því að ná árangri og völd geta heillað þær dálítið.

Þetta eru manneskjur sem eru jarðbundnar í kynlífi. Þær tengja mest í gegnum skynfæri og allt það áþreifanlega sem lætur þeim líða vel. Þær eru þó ekki sömu lúxuskettir og Mars-Nautin. Það þarf ekkert auka skraut. Yfirleitt þykir þeim best að kynlíf sé frekar einfalt og blátt áfram. Ákveðinn hráleiki kveikir í þeim, sem og elskhugar sem á einhvern hátt eru reyndir eða jafnvel eldri en þær sjálfar. Þær laðast að einstaklingum sem þær upplifa sem öfluga og jafnvel valdamikla á einhverju sviði – ef til vill í kynlífinu sjálfu.

Mars-Steingeitur eiga það til að vera of harðar við sjálfar sig. Það geta þær líka verið við sína nánustu. Fólkið í kringum þær getur upplifað mikla pressu frá þeim, sem erfitt er að standa undir. Þegar þær reiðast eiga þær það til að verða kaldar og kasta sér af enn meiri ákefð út í vinnu.

 

Vatnsberi

Þeir sem eru með Mars í Vatnsbera eru yfirleitt frekar óhefðbundnir í nálgun sinni á verkefni og samskipti. Þetta er frumlegt og sjálfstætt fólk sem lætur ekki sérstaklega vel að stjórn. Þeim er það þvert um geð að vera talið „venjulegt“ og gerir það að gamni sínu að ögra og koma á óvart. Þetta er yfirleitt mjög víðsýnt fólk með mikið umburðarlyndi sem hentar vel að fást við mannúðarstörf eða annað sem inniheldur það að berjast fyrir einhvers konar málstað. Það er alltaf hægt að treysta á frumlega nálgun Mars-Vatnsbera á verkefnin fyrir hendi.

Sami frumleiki er uppi á teningnum þegar kemur að kynlífi og kynorku. Mars-Vatnsberar þrífast best þegar kynlífið inniheldur tilbreytingar og tilraunir. Ekkert er of skrýtið – en það er margt til sem er of venjulegt. Ekki er þar með sagt að kynlíf þeirra sé aldrei í hefðbundnari kantinum – en það verður hins vegar að vera fjölbreytt og ekki festast í sama farinu. Þessir einstaklingar keyra áfram á hinu huglæga og vitsmunalega. Þar af leiðandi laðast þeir að gáfum – en gáfunum verður að fylgja frumleiki. Fólk sem er á einhvern hátt óvenjulegt, óhefðbundið og sjálfstætt heillar þá mjög.

Þetta eru þrjóskir einstaklingar sem erfitt getur reynst að beygja þegar þeir hafa bitið eitthvað í sig. Þeir geta brugðist illa við því að fá ekki sínu framgengt.

 

Fiskar

Einstaklingar með Mars í Fiskum eru næmir á umhverfi sitt og búa yfir ríku innsæi, sem þeir treysta almennt mikið á bæði í leik og starfi. Þeir eru frumlegir og sérlega hugmyndaríkir. Dreymandi geðslag þeirra getur þó orðið til þess að verkefnin klárast ekki endilega, heldur stækka og taka sífellt á sig nýja mynd. Það er þeim ekki endilega eðlislægt að standa við stranga skiladaga, þótt nútíma samfélag skilyrði þá oft til þess. Þeir þurfa ákveðið frelsi á móti til að þrífast.

Þessir einstaklingar geta verið dálítil kamelljón og eiga auðvelt með að aðlagast hvers kyns aðstæðum og fólki. Stundum er eins og þeir breyti hreinlega um persónuleika undir mismunandi kringumstæðum, en þetta er ekki óeðlilegt í tilfelli Fiska; þeir eiga sér mörg andlit. Mars-Fiskar láta sig svolítið berast með straumnum og eru afslappaðir gagnvart lífinu.

Sem kynverur eru þessir einstaklingar frumlegir og heillandi. Þeir eru rómantískir en þar sem þeir eiga það til að sveiflast töluvert frá degi til dags er líka afar mismunandi hverju þeir sækjast eftir í kynlífi hverju sinni. Þeir eru þó afar gefandi og leggja ríka áherslu á að elskhuga þeirra líði vel. Þeir laðast gjarnan að dularfullum, niðurdregnum og ef til vill dálítið þurfandi einstaklingum.

Mars-Fiskar eiga það til að leyfa lífinu svolítið að „koma fyrir sig“ og geta verið passífir. Þegar þeir reiðast finna þeir oft fyrir sektarkennd vegna þess og eiga erfitt með að stappa niður fætinum og láta í sér heyra. Þannig hafa þeir líka tilhneigingu til að verða meðvirkir. Þeir eiga oft erfitt með að taka ákvörðun og skýra afstöðu. Skoðanir þeirra virðast stundum breytast eins og veðrið. Þeir finna oft sína leið í gegnum tjáningu og baráttu fyrir ást og friði.

 

 

Marsmerki ríkisstjórnarinnar

Þar sem Mars hefur mikið að segja um átök, ákveðni okkar og það hvernig við leggjum til atlögu er ekki úr vegi að skoða aðeins nýskipaða ríkisstjórn Íslands með tilliti til Mars-merkis hvers og eins meðlims. Með því er ef til vill hægt að fá vísbendingu um það hverjir væru líklegir til að eiga í átökum hver við annan og hverjir nálgast hindranir á svipaðan hátt.

Ríkisstjórn Íslands. Mynd: Stjórnarráðið

Katrín Jakobsdóttir

Mars í Tvíbura

Bjarni Benediktsson

Mars í Hrúti

Sigurður Ingi Jóhannsson

Mars í Hrúti

Svandís Svavarsdóttir

Mars í Krabba

Guðlaugur Þór Þórðarson

Mars í Vatnsbera

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

Mars í Vog

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Mars í Nauti

Ásmundur Einar Daðason

Mars í Bogmanni

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Mars í Fiskum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

Mars í Tvíbura

Jón Gunnarsson

Mars í Fiskum

Willum Þór Þórsson

Mars í Ljóni

 

Tvíburar og Hrútar ráðandi

Í ríkisstjórninni eru tveir ráðherrar með Mars í Tvíbura, tveir með Mars í Fiskum, tveir með Mars í Hrúti, einn með Mars í Krabba, einn með Mars í Vatnsbera, einn með Mars í Vog, einn með Mars í Nauti, einn með Mars í Bogmanni og einn með Mars í Ljóni.

Það má því segja að orka Mars í Tvíbura og Hrúti sé dálítið ráðandi afl í ríkisstjórninni, sérstaklega í ljósi þess að ráðherrarnir þrír sem leiða hana fyrir hönd sinna flokka eru með þessi tvö Marsmerki; Katrín í Tvíbura, en Bjarni og Sigurður Ingi í Hrúti. Þetta þýðir að framkvæmdaorka er mikil og samskipti eru lifandi og spennandi. Þarna er drifkraftur og forvitni um viðfangsefni til staðar.

Þótt tveir ráðherrar séu með Mars í Fiskum er það mun passífari og mýkri orka, eins og fram hefur komið. Þeir geta þó átt sínar lúmsku hliðar, svo það er spurning hvað við sjáum þá Jón Gunnarsson og Guðmund Inga gera á kjörtímabilinu.

Af tríóinu er það að segja að Bjarni og Sigurður Ingi eru bráðari en Katrín. Katrín er líkleg til að nálgast verkefni af forvitni og er alltaf opin fyrir því að heyra mismunandi hliðar. Hún rannsakar hluti ofan í kjölinn og á í engum vandræðum þegar kemur að rökræðum, enda hefur hún raunar ansi gaman af þeim.

Bæði Bjarni og Sigurður Ingi eru hvatvísari en Katrín og skap þeirra getur verið eldfimt. Katrín er líkleg til að geta sætt ólík sjónarmið, eins og hún hefur auðvitað þurft að gera á síðasta kjörtímabili. Með Mars í Tvíbura hefur hún mikla burði til þess.

Hún getur þurft að slökkva nokkra elda sem Mars-Hrútarnir kveikja – en þetta fólk virðist hafa gaman af að takast á við áskoranir saman, þótt gengið geti á ýmsu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -