Atvinnuauglýsing frá Eflingu birtist í Fréttablaðinu í morgun. Um er að ræða þau störf sem starfsfólkið sem var sagt upp í vikunni gegndi, með nokkrum breytingum. Meðal hæfniskrafa er íslenskukunnátta og hafa sum störf á skrifstofunni verið lögð niður.
Um er að ræða heilsíðuauglýsingu á forsíðu atvinnuauglýsinga Fréttablaðsins. Efst í auglýsingunni er spurt stórum stöfum: „Vilt þú taka þátt í að byggja upp metnaðarfyllsta stéttarfélag landsins?“
Gabríel Benjamín, kjaramálafulltrúi hjá Eflingu og trúnaðarmaður þeirra tíu starfsmanna skrifstofunnar sem eru í VR, segir í samtali við RÚV að það hafi ekki verið fyrr en í dag, þegar atvinnuauglýsingin birtist, að margt starfsfólk skrifstofu Eflingar hafi komist að því að störf þeirra væru ekki lengur til.
Starfsfólkið hafi á sama tíma komist að því að allt í einu væri íslenskukunnátta orðin skilyrði fyrir mörg þau störf sem krefjist hennar ekki.
„Í Eflingu býr mikill mannauður og fjölbreytni hefur verið styrkur okkar. En nú stendur til að útrýma henni og reka út úr húsi erlenda starfsfólkið okkar sem hefur byggt upp starfið og stutt við erlendu félagsmenn okkar hvað best. Mér finnst þetta til háborinnar skammar,“ segir Gabríel Benjamín í samtali við RÚV.
Hann segist eiga von á því að margir leiti ráða hjá VR eftir páska.
Ragnar Þór Ingólfsson hefur verið gagnrýndur töluvert síðustu daga fyrir að taka ekki skýra afstöðu í málinu. Enda séu, eins og áður sagði, um tíu starfsmenn af þeim sem sagt var upp, í VR.
Í samtali við fréttastofu RÚV í gær sagðist Ragnar Þór ekki hafa átt von á hópuppsögninni. „Það hafa náttúrulega verið gríðarleg átök í kringum félagið sem endaði með risastóru uppgjöri í síðustu kosningum til formanns og stjórnar. Maður bjóst alveg við því að það yrðu breytingar og eitthvað í kjölfarið sem myndi gerast, en ég átti ekki alveg von á þessu.“
Ragnar Þór sagði stjórn VR hingað til hafa ekki viljað íhlutast í þær deilur og átök sem hafa verið á skrifstofu Eflingar.
„Það hefur náttúrulega verið þrýstingur á mig og félagið að vera með yfirlýsingar sem aftur hefur verið mjög erfitt vegna þess að við erum í mjög viðkvæmri stöðu gagnvart þeim félagsmönnum sem við erum að verja hagsmuni fyrir.“
Ragnar sagði það stjórnarinnar að taka ákvörðun um það hvort til stæði að blandast meira inn í málefni Eflingar eða stéttarfélagsins. Það yrði tekið fyrir á stjórnarfundi.