Scott var dæmdur í 18 mánaða fangelsi í héraðsdómi Reykjaness þann 5. október árið 2005, fyrir stórfellda líkamsárás sem varð dönskum hermanni að bana.
Þann 13.nóvember árið 2004 voru mennirnir tveir að skemmta sér á veitingastaðnum Traffic í Keflavík. Daninn, Flemming, kom til landsins sama kvöld og átti að gista ásamt öðrum dönskum hermönnum á hóteli í Keflavík yfir nótt.
Átök brutust á milli mannana en sagði Scott að Flemming hafi ítrekað reynt við kærustu hans. Báðir voru þeir töluvert ölvaðir en Scott kýldi Flemming í hálsinn að slíku afli að slagæð rifnaði og blæðing sem Flemming hlaut á milli heila og heilahimna leiddi til dauða hans.
Ekkert blóð var á Flemming eða nálægt honum þegar sjúkraflutningamönnum bar að garð og reyndu að endurlífga hann. Flemming var fluttur á Heilsugæslustöð Suðurnesja þar sem hann var úrskurðaður látinn, hann var aðeins 33 ára þegar hann lést. Scott yfirgaf staðinn strax eftir hnefahöggið en var svo handtekinn á heimili sínu, atvikið náðist á öryggismyndavélum. Hann játaði brot sitt.
Scott spilaði knattspyrnu í meistaradeild karla með Keflavík, liðinu var boðin áfallahjálp eftir atvikið enda kom þetta mörgum töluvert á óvart. Scott var ekki þekktur fyrir neins konar ofbeldi. „Við stöndum á bak við Scott. Leikmenn liðsins hittust á laugardaginn og fóru yfir málið. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir alla,“ sagði Rúnar Arnarson formaður knatt- spyrnudeildar Keflavíkur í samtali við DV eftir atburðinn.
Scott hafði búið hér á landi frá árinu 1996 og starfaði sem atvinnumaður í knattspyrnu, lengst af með Grindavík og Keflavík. Hann er skoskur og var 29 ára þegar atburðurinn átti sér stað.
Offursti í danska flughernum sagði í samtali við DV Flemming hafi verið reyndur flugmaður og var yfirliðþjálfi í danska flughernum. „Danski herinn hefur enga lögsögu yfir rannsókninni. Hún er í höndum íslensku lögreglunnar. Um leið og rannsókn á líki Flemmings er lokið munum við sækja hann á herflugvél og flytja til Danmerkur. Þar mun fjölskyldan halda minningarathöfn og félagar hans í hernum votta honum virðingu sína,“ sagði offurstinn.