Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Auður hefur fengið nóg af ósanngjarnri gagnrýni: „Jaðrar við að vera ærumeiðingar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þegar ég var 24 ára var ég grey. Ég var nýskilin við mann sem var um 20 árum eldri en ég, búinn að missa einhverjar tennur og á góðri leið með að drekka sig í hel. Hann lést einhverjum árum síðar. Mér fannst ég ekki eiga neitt betra skilið. Ég vann í frystihúsi og á öldrunarheimili fyrir vestan meðan við vorum saman, nema síðasta misserið fyrir sunnan, þá vann ég sem þjónustufulltrúi á Stöð 2, vann fyrir okkur báðum, og var byrjuð að skrifa sögu á fermingarritvélina mína, búin að hnoða saman einhverjum síðum.“ Svo byrjar langur og öflugur pistill Auðar Jónsdóttur rithöfunds sem hún birti í dag á Facebook.

Í pistlinum talar hún um að hafa fengið að heyra það frá því að hún var 24 ára gömul að hún fái aðeins útgefið eftir sig bækur vegna þess að afi hennar var Halldór Kiljan Laxness. Þá segir hún frá enn einni gagnrýninni á sig er hún gaf út bókablað fyrir Stundina en nýr höfundur hafði kallað blaðið forréttindablað vegna þess að hún væri barnabarn afa síns og Kamilla sem einnig skrifaði í blaðið væri Einarsdóttir Kárasonar.

„Nýr höfundur, sem hafði þá ekki ennþá fengið dóm, sem þó var þá þegar í vinnslu, gagnrýndi mig þá fyrir að ritstýra forréttindablaði, þar sem ég væri barnabarn afa míns. Auk þess væri Kamilla, dóttir Einars Kárasonar, væri að skrifa í það, en við værum kúltúrbörn, forréttindabörn. Með Kamillu veit ég að hún er þriggja barna sjálfstæð móðir og starfandi bókavörður sem byrjaði að skrifa um fertugt þegar bókaforlag fór þess á leit við hana, en ástæðan var aldrei pabbi hennar, heldur það að hún hafði vakið mikla athygli fyrir að vera óvenju fyndinn penni á twitter. En það hefur lengi tíðkast að skapandi útgefendur pikki í fólk sem þeim finnst sniðugt að hvetja til að skrifa bók. Útgefandi hennar hafði reyndar gert það í þó nokkur skipti, pikkað í ólíklegasta fólk.“

Auður talaði einnig um Eirík Örn Norðdahl sem hafi fyrir nokkrum árum gert grín að henni fyrir að skrifa of mikið um meðvirkni. Hún mætti honum í Lestinni á Rás 1 til að svara fyrir gagnrýni nýja rithöfundarins á bókablaðið sem hún ritstýrði.

„En í þessu bloggi, og í útvarpsviðtali í Lestinni, þar sem ég mætti Eiríki Erni, útmálaði hann okkur Kamillu sem einhvers konar Bjarna Ben bókamenningarinnar, eins og eina ástæðan fyrir skrifum okkar væri ætterni okkar. Skyndilega sat ég, kona sem verður fimmtug á næsta ár, að svara andmóð fyrir hvernig ég fékk fyrsta útgáfusamninginn minn fyrir fjórðungi úr öld síðan.

Til að styrkja málflutning sinn málaði hann unga höfundinn sem hafði bloggað um okkur upp sem fíkniefnaneytanda á leigumarkaði sem ætti erfitt uppdráttar. Í ljós kom að konan er öflugur forritari með rekstur við að aðstoða fyrirtæki með textagerð, búin að vera edrú lengi og kærasta eins kröftugasta rithöfundar þjóðarinnar. Auk þess var hún þá búin að fá eins marga dóma og Ólafur Jóhann og búin að vera í Kiljunni, og útskrifuð úr ritlist við Háskóla Íslands. Í viðtalinu kom þetta hins vegar út eins og ég, spillti nóbelserfinginn væri að hamast á brotinni konu sem kæmist ekki að út af fólki eins og mér.
Þess ber að geta að Eiríkur Örn gaf út bók 26 ára, auk þess að hafa ungur tekið sér pláss með bloggi, þrungnu gildishlöðnu áliti á bókmenntum og kollegum sínum, og raunar síðar með því að ritstýra sjálfur menningarmiðli, Starafugli, og hafa lengi tilheyrt fyrirferðarmikilli hreyfingu í bókalífinu sem kallaðist Nýhil. Hann var þarna því að konan sem hafði gagnrýnt mig treysti sér ekki til að mæta mér svo þetta yrði ekki persónulegt, þannig að hann var mættur, gamall vinur kærasta hennar, Steinars Braga. Hann yfirheyrði mig í viðtalinu eins og spilltan viðskiptajöfur, já, eins og ég væri loddarinn og svindlarinn sem ég hef alla ævi verið stöðugt að reyna að telja mér trú um að ég sé ekki, þó að ég skrifi og gefi út. Og jú, hafi gefið út bækur á níu tungumálum og leikrit og bíómyndir verið byggðar á þeim.
Nefnilega: Konan sem fær útgefið af því að afi hennar hét Halldór Laxness. Ekki af því að hún getur skrifað. Konan sem fær útgefið út á karlmanninn, afa sinn. Menningarauðmagn hans. Feita Salka Valka með áskrift á tilnefningar, eins og einn jafnaldra karlkyns kollegi minn uppnefndi mig í bók þegar ég var töluvert yngri. Og speglaði þannig upplifun mína af sjálfri mér, eftir að hafa hlustað á þessa sömu plötu aftur og aftur og aftur, síðan ég var 24 ára. Að þykjast vera afi sinn! Að skrifa af því hún er svo upptekin af honum. Að nýta sér

ætternið til að svindla á öðrum.“

- Auglýsing -

Í lokaorðum sínum segir Auður að nóg sé komið af gagnrýni á hana út frá ætterni hennar.

„Ég hef upplifað allskonar umræður og gagnrýni á 25 ára ferli. En þetta, með afa minn, það er komið nóg af því. Og það að hafa lesið í fjórum fjölmiðlum fyrir jól að ég hafi haft umsjón með forréttindablaði út af ætterni mínu jaðrar við að vera ærumeiðingar.“

Hér fyrir neðan má lesa pistlinn í heild sinni:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -