Föstudagur 27. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Auggie Duffy gengur laus á meðan brotaþoli lifir í ótta: „Hvers vegna verndar kerfið mig ekki?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég ætla ekki að þegja, því þögnin er eina vopn ofbeldismanna.“

Þetta segir kona sem varð fyrir nauðgun af hendi manns sem hefur verið sakfelldur fyrir brotið á tveimur dómsstigum, síðast í Landsrétti í febrúar síðastliðnum. Maðurinn gengur þó enn frjáls um götur Reykjavíkur. Konan segist finna fyrir stöðugum ótta og áhyggjum, ekki síst vegna þeirrar óvissu og upplýsingaleysis sem kerfið bjóði henni upp á í hennar eigin máli. Hún upplifir sig valdalausa og segir það skelfilegt fyrir brotaþola að vera ekki aðilar að eigin málum í dómskerfinu.

„Ég er stödd á fundi í vinnunni þegar ég lít út um gluggann og sé manninn sem nauðgaði mér á gangi, frjálsan,“ segir konan. „Hann var dæmdur fyrir úthugsaða og ofbeldisfulla nauðgun. Hann var mér ókunnugur.“

Maðurinn gengur enn laus þrátt fyrir að hafa verið dæmdur fyrir alvarlegt kynferðisofbeldi sem virðist hafa verið framið að yfirlögðu ráði, á meðan brotaþoli hans þarf að lifa við þann ótta að geta átt von á að mæta honum hvenær sem er.

„Hann var dæmdur fyrir úthugsaða og ofbeldisfulla nauðgun“

Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun geta einstaklingar sem hafa verið dæmdir í fangelsi frestað því að taka út fangavist sína um nokkurt skeið, til að mynda með þeim rökum að þeir þurfi að búa um persónulega hagi sína áður en þeir fara í fangelsi. Auk þess má fresta refsingu með áfrýjunum, hvort sem grundvöllur er fyrir þeim eða ekki. Það veldur töfum á að afplánun geti hafist, hvort sem beiðni um áfrýjun er samþykkt eða ekki.

Gengur undir öðru nafni en því sem birt var

Maðurinn sem um ræðir heitir Augustin Dufatanye, en er betur þekktur undir nafninu Auggie Duffy. Hann var sakfelldur fyrir nauðgun í maí árið 2021 og dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann var nafngreindur í dómnum sem Augustin en samkvæmt heimildum Mannlífs er það ekki nafnið sem fólk þekkir almennt sem kannast við hann.

- Auglýsing -

Samkvæmt dómnum og frásögn brotaþola í samtali við blaðamann Mannlífs kemur fram að hann hafi notfært sér ölvunarástand hennar og svefndrunga til þess að brjóta á henni. Konan hafði verið að skemmta sér með vinnufélögum sínum en orðið viðskila við þá. Þegar hún varð á vegi Auggie Duffy var hún mjög ölvuð. Hún segir hann hafa nýtt sér ástand hennar til þess að koma henni úr miðbænum og í íbúð sem hann hafði þá til umráða.

Þrátt fyrir að hann hafi haldið því fram í vitnisburði sínum að konan hafi gengið sjálfviljug með honum um 50 mínútna göngu frá miðbænum og í íbúð nálægt Kringlunni, sást það greinilega á gögnum úr síma hennar að sá framburður gat ekki staðist. Forrit sem var í gangi í síma hennar sýndi að hún hafði ekki tekið nein skref á þessum tíma, en sýndi hins vegar fram á að hún hefði verið í bíl í um sex mínútur. Konan segist líklega hafa verið mjög vönkuð eða dáin áfengisdauða meðan hann flutti hana með sér í íbúðina. Auk þessa var vitað að konan hafði verið klædd í háa hæla þetta kvöld. Hálka var úti og eftirlitsmyndavélar úr miðbænum sýna að hún átti í erfiðleikum með gang og að klæða sig í yfirhöfn sína.

Konan rankaði við sér snemma morguns daginn eftir í ókunnugri íbúðinni, klæðalítil og ringluð. Hún segist þá hafa klætt sig í snatri og hraðað sér heim með leigubíl. Síðar um daginn leitaði hún á neyðarmóttöku þar sem hún gaf hjúkrunarfræðingi stutta frásögn sína og sagðist telja að brotið hefði verið á henni kynferðislega. Í framhaldi gekkst hún undir líkamsskoðun. Á henni voru áverkar sem studdu grunsemdir um kynferðisbrot.

- Auglýsing -

Fyrir dómnum þóttu sannanir fyrir sekt Auggie Duffy í málinu hafnar yfir allan vafa. Framburður konunnar, gögn, áverkavottorð og vitnisburður sérfræðinga studdi það að hann hefði nauðgað henni umrædda nótt. Auk þess var stuðst við upptökur úr eftirlitsmyndavélum, ofangreind gögn úr snjalltæki og framburð vitna. Sakborningurinn þótti hins vegar ekki samkvæmur sér í framburði.

Fann fyrir miklum ótta og óvissu

Eftir að dómur hafði verið kveðinn upp í Héraðsdómi áfrýjaði Auggie Duffy málinu til Landsréttar. Við tók bið þar sem brotaþoli hans hafði ekki aðgang að neinum upplýsingum um framvindu eða tímasetningar. Konan starfar í miðbæ Reykjavíkur, sem er svæði sem Auggie Duffy hefur bæði verið búsettur og eytt miklum tíma á í gegnum tíðina. Konan lýsir því að hafa fundið fyrir ótta og mikilli óvissu, vitandi af geranda sínum lausum á götum borgarinnar, án þess að hafa neina vitneskju um það hve lengi ástandið kynni að vara, áður en málið yrði aftur tekið fyrir í Landsrétti.

Á þessu tímabili voru engar hömlur á förum Auggie Duffy. Ekki var fylgst sérstaklega með ferðum hans, hann þurfti ekki að bera ökklaband eða annars konar staðsetningartæki og vegabréf var ekki tekið af honum. Hann gat því ferðast að vild, en konan segist hafa vitneskju um að hann hafi farið úr landi um nokkra hríð.

Þann 25. febrúar síðastliðinn var dómur kveðinn upp í Landsrétti. Frávísunarkröfu ákærða var þar hafnað og dómur Héraðsdóms yfir honum staðfestur. Auggie Duffy skyldi sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði, auk þess að greiða allan sakarkostnað og miskabætur til brotaþola.

Mynd sem Auggie Duffy birti af sjálfum sér fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur, þegar málið var tekið fyrir.

Þorði ekki heim af skrifstofunni

Konan lýsir miklu áfalli í kjölfar þess að hafa séð geranda sinn á ferli við vinnustað hennar. Hún hafi ekki þorað út. „Hvers vegna verndar kerfið mig ekki? Ég er bara að fara í gegnum daginn minn, lít svo út um gluggann og þar er hann, frjáls maður.“

Þegar konan var nýbúin að lenda í því að sjá hann fyrir utan vinnustaðinn skrifaði hún eftirfarandi orð:

„Ég skelf núna, hjarta mitt slær svo hratt, mér líður eins og það muni líða yfir mig, mér er óglatt, ég er hrædd, ég er reið… Hvers vegna er hann verndaður en ekki ég? Ég er að bíða eftir að geta yfirgefið skrifstofuna, ég er hrædd við að fara. Hvað ef ég sé hann? Hvað ef ég rekst á hann? Ég þarf að komast í öryggið mitt, heim til fjölskyldu minnar, læsa hurðunum og aldrei fara út.“

„Hvers vegna er hann verndaður en ekki ég?“

Hún segir að sér hafi ekki verið boðin nein aðstoð eða stuðningur eftir að dómur Landsréttar féll. „Ég fæ engar upplýsingar um framvinduna og það hvenær hann komi til með að fara í fangelsi og taka út sína refsingu.“

Konan hafði samband við Fangelsismálastofnun eftir þetta atvik, til þess að reyna að fá einhver svör um það hvernig stæði á því að maðurinn væri ekki farinn í fangelsi. Hún komst að því að hann væri búinn að sækja um að dómnum verði áfrýjað aftur, til Hæstaréttar. Umsóknin barst þann 21. apríl síðastliðinn.

Gætu liðið sex til sjö mánuðir fram að afplánun

Hæstiréttur hefur tvo mánuði til þess að taka afstöðu til beiðnarinnar og ákveða hvort samþykkt verði að áfrýja málinu. Ef beiðninni er hafnað er dómurinn sendur áfram til Fangelsismálastofnunar sem hefur þá nokkra daga til þess að fara í gegnum gögnin og senda Auggie Duffy síðan bréf þar sem farið er yfir smáatriði er varða refsivistina, hvenær og með hvaða hætti hann skuli mæta til að hefja afplánun sína og fleira. Frá því að hann fær bréfið hefur hann fjórar vikur áður en afplánun hefst. Innan þessara fjögurra vikna getur hann hins vegar óskað eftir að afplánun verði frestað um þrjá mánuði, svo hann geti búið um hagi sína og persónuleg mál, sem til að mynda er hugsað í tengslum við vinnu eða ef viðkomandi á börn. Þessi frestur býðst þó öllum, óháð persónulegum högum, og því nýta flestir sér hann. Ef beiðnin er samþykkt er ný dagsetning ákveðin fyrir upphaf afplánunar. Þetta þýðir að jafnvel þótt áfrýjun yrði ekki samþykkt í tilfelli Auggie Duffy, þá gætu samt liðið allt að sex til sjö mánuðir áður en hann þarf að hefja fangavist sína. Á meðan lifir konan sem hann braut á í ótta.

Í samtali við blaðamann lýsir konan miklu óöryggi vegna allrar óvissunnar í kringum málið. Mál sem er hennar eigið, þar sem hún er brotaþolinn. Hún hefur engan aðgang að upplýsingum um dóm hans, hvenær hann hefji afplánun, hve lengi hann í raun og veru sitji inni þegar þar að kemur og hvort hann muni afplána hluta dómsins annarsstaðar en í hefðbundinni fangavist, í opnu úrræði.

Konan býr sjálf nálægt Vernd. Þegar hún lýsti yfir áhyggjum sínum af því að Auggie hefði hugsanlega kost á að afplána hluta dómsins þar var henni sagt að hún þyrfti þá sjálf að hafa samband við yfirvöld og óska eftir því að hann fengi ekki að dvelja á Vernd. Það gerði hún.

Konan lýsir því sem mikilli brotalöm á kerfinu hve lítinn stuðning brotaþolar í málum sem þessum fái. Henni hafi ekki verið boðinn neinn stuðningur eða áfallahjálp eftir að dómur var kveðinn upp, engin aðgerðaráætlun hafi verið henni aðgengileg og engin sálfræðimeðferð í boði. „Öllu sem ég hef komist að hef ég þurft að bera mig eftir og komast að á eigin spýtur. Það hefur valdið mér kvíða og áhyggjum af sjálfri mér og fjölskyldu minni. Ef við brotaþolar fengjum einhvers konar aðgerðaráætlun og stuðning, með reglulegri eftirfylgni, myndi það hjálpa mikið til við bata okkar, vernd og framtíðarhorfur.“

Virðist ekki einsdæmi

Undanfarið hafa fleiri sögur komið fram um Auggie Duffy á samfélagsmiðlum. Þar virðist blasa við ákveðið munstur kynferðislegrar áreitni, kynferðisofbeldis og almennrar ámælisverðrar hegðunar í garð kvenna. Af þeim frásögnum að dæma er mál þess brotaþola sem hér er fjallað um langt frá því að vera einsdæmi. Út frá því má ætla að maðurinn sé sannarlega hættulegur nærumhverfi sínu.

Þess ber að geta að Fangelsismálastofnun hefur upp að vissu marki vald til þess að ákvarða hversu fljótt einstaklingar þurfa að hefja afplánun sína, til að mynda ef almannahagsmunir mæla með því eða ef þeir eru grunaðir um að hafa framið refsiverðan verknað á ný.

Á næstunni mun Mannlíf birta ítarlegri grein um mál Auggie Duffy, viðtal við brotaþola í ofangreindu máli sem og vitnisburði fleiri meinta brotaþola hans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -