Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða aukast líkurnar á eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni í lok janúar.
Samkvæmt nýrri tilkynningu frá Veðurstofu Íslands er hraði kvikuinnflæðis undir Svartsengi svipaður og hann var fyrir síðasta eldgos og nýjustu gögnin benda til þess að líkur á kvikuhlaupi aukast og að það gjósi jafnvel í lok janúar.
Þegar jafn mikið magn kviku hefur safnast undir Svartsengi og fór þaðan í kvikuhlaupinu og eldgosinu sem hófst 20. nóvember síðastliðnum, aukast líkurnar á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Um er að ræða á bilinu 12 til 15 milljón rúmmetra af kviku.
Haldi kvikusöfnunin áfram á álíka hraða og undanfarið, má reikna með því að rúmmál kviku undir Svartsengi nái 12 milljónum rúmmetra í enda janúar.