Merkjanleg aukning var á tilkynningum til Eitrunarmiðstöðvar Landspítalans vegna nikótínpúða frá árinu 2020 til 2021. Þetta kemur fram í ársskýrslu miðstöðvarinnar
Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins sem fengnar voru frá Eitrunarmiðstöðinni voru nokkrar eitranir vegna nikótínpúða þar sem ung börn komust í tæri við slíka. Í einstaka tilfellum komust börn í nikótínpúða á gangstéttum eða götum en í langflestum tilvikum var það á heimili nákomins.
Símtölum vegna sjálfskaða fjölgaði úr 6,5% í 8,5% milli ára, þá jukust símtöl vegna rangrar lyfjagjafar á stofnunum úr 13% í 15%.
Algengustu lyf sem Eitrunarmiðstöð fékk símtöl vegna voru nikotínlyf, parasetamól og geðlyf, þá var nokkuð um eitranir vegna flogaveikislyfja og hjartasjúkdómalyfja. 47,0 % fyrirspurna voru vegna lyfjaeitrana og 45,0 % vegna annarra eiturefna.
Símtöl vegna hreinsiefna voru 60% af þeim sem bárust Eitrunarmiðstöð vegna eiturefna.