Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-0.3 C
Reykjavik

Ávinningur og fylgikvillar offituaðgerða – Ísland á Norðurlandamet í ofþyngd

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vinsældir offituaðgerða hafa aukist gríðarlega með árunum. Bæði erlendar og íslenskar rannsóknir sýna ávinning að offituaðgerðum og litlar líkur á fylgikvillum. Ísland á Norðurlandamet í offitu og er talið að 60% þjóðarinnar séu í ofþyngd sem setur stóran hóp fólks í áhættuhóp fyrir fjölda sjúkdóma. Árið 2021 voru 18% grunnskólabarna í ofþyngd og 7% þeirra glímdu við offitu. Notast er við BMI-stuðul sem reiknar saman hæð og þyngd, ef útkoman er 30 eða hærri er einstaklingur sagður vera með offitu. Alvarleg offita er miðuð við BMI 35.

Hér á landi eru gerðar þrjár tegundir offituaðgerða; magaermi, magahjáveita og minni hjáveita. Áður nutu svokölluð magabönd vinsælda, en síðar kom í ljós að hætta á margvíslegum líkamlegum kvillum fylgdi þeim. Í dag eru þrjár tegundir aðgerða framkvæmdar til að aðstoða sjúklinga við þyngdartap.

 

  • Magaermi

Magaermi er sú offituaðgerð sem mest er notuð í dag, en hún hefur verið framkvæmd í yfir tíu ár. Um 90% magans eru fjarlægð, sem gerir að verkum að sjúklingur getur innbyrt talsvert minna magn af mat og drykk en áður. Almennt þolir maginn um lítra af vökva og mat en í kjölfar magaermisaðgerðar verður magnið ekki nema um hundrað millílítrar. Minni líkur eru á ýmsum langtímakvillum líkt og garnaflækju þegar gengist er undir magaermisaðgerð frekar en magahjáveitu. Einnig eru líkurnar á svokallaðri losun, „dumping syndrome“, talsvert minni. Með því að fjarlægja hluta magans sem seytir þau hormón sem framkalla hungur er matarlyst þeirra sem undirgangast aðgerðina skert til muna.

 

- Auglýsing -
  • Magahjáveita

Um 20 ára reynsla er á magahjáveituaðgerðum. Maganum er skipt í tvo hluta, annar rúmar aðeins 20 millílítra. Mjógirni er tengt við minni pokann veitt fram hjá stærri hlutanum, skeifugörn og efsta hluta mjógirnis. Í einföldu máli má segja að gerð sé styttri leið sem maturinn fer í gegnum, sem veldur því að líkaminn nýtir færri kaloríur úr honum. Þessu fylgir hætta á næringarskorti.

 

  • Minni hjáveita

Nýjasta afbrigði offituaðgerða er svokölluð minni hjáveita. Hún er einfaldari en hefðbundin hjáveituaðgerð og líkur á fylgikvillum eru taldar minni. Árangurinn virðist svipaður þeirri fyrrnefndu, en ekki er komin nógu löng reynsla á minni hjáveitur til þess að úrskurða um langtímaáhrif af þeim.

- Auglýsing -

 

 

„Í byrjun árs 2020 gaf embætti landlæknis út klínískar leiðbeiningar um meðferð fullorðinna einstaklinga með offitu og er hægt að finna þær á vef embættisins. Þar kemur fram: „Skurðaðgerð ætti að íhuga fyrir einstaklinga á aldrinum 18–65 ára með LÞS ≥40,0 eða þá sem eru með LÞS ≥35,0 og fylgisjúkdóma sem tengjast offitu (sykursýki 2 og aðra efnaskiptasjúkdóma, hjarta- og öndunarfærasjúkdóma, kæfisvefn, alvarlega liðsjúkdóma). Fyrir aðgerð á Landspítala fara sjúklingar í sérhæfða atferlismeðferð á Reykjalund eða á sambærilega stofnun til undirbúnings offituaðgerð.“ (Heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um offituaðgerðir.)

 

 

Aðgerðir gerðar á einkastofu

Fram til ársins 2017 voru offituaðgerðir einungis gerðar á Landspítalanum. Í dag hefur einkarekna stofan Klíníkin heimild til þess að framkvæma offituaðgerðir og eru langflestar þeirra gerðar þar. Kostnaður við slíkar aðgerðir er í kringum 1,2 milljónir. Margir leita út fyrir landsteinana í offituaðgerðir og má því telja að fjölgun þessara aðgerða sé talsvert meiri en vitað er.

 

Hverfandi líkur á alvarlegum fylgikvillum

Samkvæmt grein Læknablaðsins frá árinu 2016 eru litlar líkur á að sjúklingar upplifi snemmkomna fylgikvilla þegar um magahjáveituaðgerð er að ræða, það er á fyrstu þrjátíu dögunum eftir aðgerð. Af þeim 775 sem gengust undir magahjáveituaðgerð á árunum 2011 til 2015, fengu 4,8% snemmkomna fylgikvilla. Talið er að um 20% fái síðkomna fylgikvilla, en í fyrrnefndri grein kemur fram að ávinningur aðgerðarinnar fyrir heilsufar sé mikill. Rannsóknir sína að offituaðgerðir geti bætt lífslíkur sjúklinga til muna, með þyngdartapinu fylgir oftar en ekki bati hvað varðar ýmsa sjúkdóma sem fylgja offitu. Aðgerðin minnkar líkur á sykursýki 2 og hefur jákvæð áhrif á háþrýsting, æðasjúkdóma. Kæfisvefn hættir og blóðfituröskun hverfur. Rannsókn sem gerð var á einstaklingum sem gengust undir offituaðgerð á Landspítala árin 2000 til 2014 sannar að árangurinn sé mikill.

 

Eitt andlát eftir offituaðgerð

Ekkert andlát hefur orðið í kjölfar offituaðgerða sem gerðar voru á Landspítala á árunum 2010 til 2020. Samkvæmt upplýsingum frá Klínikinni hafa aðeins 0,8% þeirra sem gengust undir offituaðgerð þar þurft enduraðgerð á fyrstu þrjátíu dögunum. Einn sjúklingur á þeirra vegum hefur látið lífið á fyrsta ári eftir aðgerð, en sagt er að undirliggjandi sjúkdómar hafi haft umtalsverð áhrif. Engar rannsóknir hafa verið gerðar hérlendis á langtímaáhrifum magaermisaðgerða, en erlendar rannsóknir sína litlar líkur á alvarlegum fylgikvillum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -