Talsvert hefur verið fjallað um há laun ýmissa bæjarstjóra á Íslandi undanfarið. Nokkrir þeirra eiga MBA nám í Háskóla Íslands sameiginlegt, ef marka má nýja færslu skólans, sem hreykir sér af bæjarstjórunum knáu.
Á Íslandi er sveitarfélag á hverja tæplega sex þúsund íbúa landsins. Af 64 sveitarfélögum á Íslandi eru 41 þeirra með færri en tvö þúsund íbúa. Fjölmiðlar hafa nýlega fjallað um há laun þeirra sem gegna þessu embætti í byggðum landsins, en Vísir fjallaði til að mynda um átta þeirra nú í sumar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er í þriðja sæti yfir launahæstu sveitarstjóra landsins, með rúmar 2,4 milljónir á mánuði. Hann er einn þeirra úr röðum íslenskra sveitarstjóra sem Háskóli Íslands bendir á að hafi útskrifast úr MBA-námi skólans.
„Hátt hlutfall bæjarstjóra á Íslandi með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands!“ segir í nýrri færslu námsbrautarinnar. Í henni segir að ánægjulegt sé að fylgjast með útskrifuðum MBA-nemendum frá Háskóla Íslands dafna í starfi.
„Á dögunum var Geir Sveinsson ráðinn bæjarstjóri í Hveragerði en hann útskrifaðist úr MBA-náminu frá Háskóla Íslands árið 2004. Hann bættist þannig við í hóp fleiri bæjarstjóra á landinu sem hafa útskrifast úr MBA-námi okkar.“
Hinir bæjarstjórarnir sem í færslunni eru sagðir hafa útskrifast úr náminu eru:
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, bæjarstjóri Sveitafélagsins Árborgar. Hún útskrifaðist árið 2021.
Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar. Hún útskrifaðist árið 2007.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Hann útskrifaðist árið 2002.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar. Hann útskrifaðist árið 2002.
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, hann útskrifaðist árið 2009.
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir er meðal ellefu hæst launuðu sveitarstjóra landsins, líkt og kom fram í umfjöllum Fréttablaðsins í júní.
Fjórir hæst launuðu sveitarstjórarnir eru með hærri laun en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Þeirra á meðal er Kjartan Már.