„Þetta er náttúrulega grafalvarleg staða og það er orðið býsna kalt. Fólk er farið að finna mjög fyrir ástandinu,“ segir Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri Voga. Hann og aðrir bæjarstjórar á Suðurnesjum funda nú með aðgerðastjórn Almannavarna. Eftir að hjáveitulögnin gaf sig með þeim afleiðingum að ekki tókst að koma heitu vatni aftur á Reykjanesið. Blaðamaður mbl.is náði tali af Gunnari Axel áður enn hann hélt á fundinn.
„Það er í rauninni bara verið að fara yfir næstu skref. Fá upplýsingar frá HS Orku og viðbragðsaðilum sem eru að vinna í plani b,“ útskýrir Gunnar Axel í samtalinu.
„Við gerum ráð fyrir því að þetta muni vara í einhverja daga til viðbótar og að þjónusta sveitarfélagana, skólar og slík starfsemi verði að öllum líkindum skert, ef nokkur, á næstu dögum. Það kemur betur í ljós í dag,“ segir Gunnar.
4000 hitablásarar
Um fjögur þúsund hitablásurum verður dreift á svæðinu til þeirra sem ekki hafa haft tök á að verða sér út um slíka. Er þá helst verið að huga að fólki sem býr eitt.
„Það eina sem er ljóst er að þetta mun taka talsvert lengri tíma en væntingar stóðu til í gær,“ bætir Gunnar Axel við.