„Ráðuneyti viðskiptamála hefur verið öflugasti bakhjarl RSV frá upphafi, í þeirri viðleitni að tryggja megi að rannsóknir á sviði verslunar og þjónustu fari fram hérlendis. Til næstu tveggja ára verður aukið við framlag stjórnvalda til RSV m.a. í ljósi örra breytinga á sviði verslunar og þjónustu með tilkomu aukinnar netverslunar og tækninýjunga.
Bættar tölfræðiupplýsingar og úrvinnsla þeirra skapa ýmis tækifæri sem leitt geta til þess að efla samkeppnishæfni verslunar og þjónustu á Íslandi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra á vef stjórnarráðsins.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV), hafa undirritað þjónustusamning til tveggja ára um framlag ráðuneytisins til rannsókna á sviði verslunar og þjónustu.
Með þjónustusamningum er lögð áhersla á að auka rannsóknir og úrvinnslu tölfræðiupplýsinga á sviði verslunar og þjónustugreina og að þær upplýsingar séu birtar stjórnvöldum, almenningi og fyrirtækjum á aðgengilegan hátt. RSV mun annast rannsóknir og tölfræðiúrvinnslu fyrir verslunar- og þjónustugreinar á Íslandi í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni verslunar- og þjónustufyrirtækja. Sérstök áhersla verður lögð á gagnavinnslu sem tengist neyslu ferðamanna hér á landi og mun RSV m.a. greina mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna, sundurliðað eftir útgjaldaliðum.