Baldur Borgþórsson, fyrrverandi varaborgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík, er genginn í Sjálfstæðisflokkinn. Um miðjan síðasta mánuð sagði hann sig úr Miðflokknum eftir að hafa gegist upp á samstarfinu við Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa flokksins.
Í gær gekk hann svo í Sjálfstæðisflokkinn og íhugar nú hvort hann bjóði sig fram á vegum flokksins í sveitastjórnarkosningunum í vor. Í yfirlýsingu sagðist hann í störfum sínum með Vigdísi „ítrekað orðið vitni að starfsháttum og framkomu undir merkjum Miðflokksins sem ég get með engu móti sætt mig við.“
Baldur er þá annar Miðflokksmaðurinn sem færir sig yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Frægt var á dögunum er Birgir Þórarinsson, oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi í nýliðnum þingkosningum, sagði skilið við flokkinn og gekk til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Ástæðuna sagði Birgir vera Klausturmálið landsfræga.