Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Bannárin á Íslandi stóðu yfir í 20 ár: „Þjóðin þoldi ekki þetta aðhald“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bannárin á Íslandi stóðu yfir í 20 ár (eða 7 ár eftir því hvernig á málið er litið).

Algjört áfengisbann gekk í gildi árið 1915. Bannið tók til þess að framleiða og selja áfenga drykki. Sala léttra vína var þó leyfð aftur árið 1922 (Spánarvín), en áfengisbannið var síðan afnumið alveg 1. febrúar árið 1935. Bjór sem hafði verið leyfður fyrir 1915 var þó ekki leyfður aftur á Íslandi fyrr en 1. mars 1989. Þjóðaratkvæðagreiðslur voru haldnar um áfengisbann 1908 og 1933.

Áfengisauglýsingar voru bannaðar á Íslandi með lögum frá árinu 1928 meðan áfengisbannið var enn í gildi. Áfengisbanninu var svo aflétt 7 árum seinna, en auglýsingabannið hefur haldist síðan.

Með opnun Íslands gagnvart umheiminum hefur íslenskt samfélag tekið gagngerum breytingum á síðustu áratugum. Löggjöfin og framkvæmd hennar í áfengismálum hefur færst til frjálsræðisáttar og viðhorf landsmanna til áfengis færst nær því sem gerist annars staðar í V-Evrópu. Á sama tíma hefur neysla áfengis aukist hér á landi ef rannsóknir eru skoðaðar og hægt er að rýna í textanum hér að neðan. Lærdómurinn sýnir svokallaða íslenska bjórmálinu: Afar líklegt er að upptaka markaðslögmála og rýmkun reglna um notkun vímuefna, hvort heldur er áfengis eða annarra fíkniefna, hafi leytt til aukinnar neyslu í samfélaginu, en það er erfitt að segja.

Framleiðsla, sala og neysla bjórs var bönnuð á Íslandi

- Auglýsing -

En af hverju var bjór bannaður á sínum tíma en annað áfengi leyft?

Áfengisneysla á Vesturlöndum á sér langa sögu. Ekki er lengur deilt um lagalega stöðu áfengis þótt áfengisvandinn sé löngu þekktur og vel kortlagður. Meðferð og neysla áfengis hefur ekki alltaf verið heimiluð og áfengi ekki alltaf verið samfélagslega viðurkenndur vímugjafi. Snemma á tuttugustu öldinni var áfengisneysla víða bönnuð, meðal annars á Íslandi.

Framleiðsla, sala og neysla bjórs var fyrst bönnuð á Íslandi þegar áfengisbannið tók gildi árið 1915. Alþingi ákvað árið 1922 að veita undanþágu frá algeru áfengisbanni og leyfði sölu spænskra vína, einkum vegna hættu á að tapa fiskútflutningi til Spánar. Sjónarmið heilbrigðis og almennrar lýðheilsu sem voru grundvöllur bannsins í upphafi urðu því að víkja fyrir viðskiptahagsmunum þjóðarinnar.

- Auglýsing -

Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um áfengisbannið árið 1933, þar sem naumur meirihluti reyndist fyrir því að aflétta banninu, ákvað Alþingi að leyfa innflutning og sölu á öllu áfengi nema bjór frá og með 1. mars 1935. Að undanskilja bjórinn frá afnámi áfengisbannsins vekur óneitanlega athygli. Ýmislegt bendir til að bannið á bjór hafi greitt fyrir samþykki frumvarpsins að öðru leyti á Alþingi. Andstæðingar afnáms áfengisbanns voru ekki aðeins fjölmargir meðal þjóðarinnar eins og þjóðaratkvæðagreiðslan hafði leitt í ljós skömmu áður heldur ekki síður á Alþingi þar sem þeir voru jafnframt valdamiklir. Auk þess var því haldið fram á Alþingi að bjórinn hefði ákveðna sérstöðu meðal áfengra drykkja og gæti auðveldlega kveikt löngun í áfengi meðal viðkvæmra þjóðfélagshópa.

Bjórinn gæti betrumbætt drykkjusiði landsmanna

  1. mars 1935 mátti selja allt áfengi á Íslandi, annað en bjór.

Jónas Jónsson frá Hriflu og Tryggvi Þórhallsson kusu gegn afléttingu bannsins árið 1922. Jónas sagði í grein í Tímanum 1939:

„Þegar Spánarvínin voru leyfð, var ég annar af þeim tveim þingmönnum, sem greiddi atkvæði gegn undanhaldinu við Spánverja. Og árið 1928 undirbjó ég hina síðustu sókn, sem Alþingi gerði í löggjöf um áfengismálin. Með tilstyrk þeirrar löggjafar var læknabrennivínið og skipabrennivínið upprætt. En þjóðin þoldi ekki þetta aðhald. Jafnvel ungmennafélögin höfðu afnumið bindindisheitið, og tvær stærstu hátíðir félaganna voru orðnar landskunnar fyrir opinbera stórdrykkju.“

Talsmenn bjórbannsins héldu því löngum fram á Alþingi að bjórinn myndi auka áfengisneyslu landsmanna, einkum ungmenna og verkafólks. Aftur á móti töldu andstæðingar bann á bjór skjóta skökku við þegar sterkt áfengi væri leyft og að einmitt bjórinn frekar en sterkt áfengi gæti betrumbætt drykkjusiði landsmanna.

Bjórbannið stóð til ársins 1989 þegar framleiðsla, innflutningur og sala á bjór var loks leyfð eftir að lagðar höfðu verið fram tugir tillagna á Alþingi um lögleiðingu á neyslu bjórs.

Hvers vegna lauk bjórbanninu árið 1989 en hvorki fyrr eða síðar? Bæði ytri og innri skilyrði réðu miklu um þessa tímasetningu. Stuðningur almennings við afnám bjórbannsins óx allan níunda áratuginn, bæði á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum. Krafan um að Alþingi afnæmi bjórbannið varð æ sterkari þegar á leið. Auknar utanferðir Íslendinga og vaxandi straumur ferðamanna til Íslands hafði dregið úr einangrun landsins og stór hluti þjóðarinnar hafði kynnst menningu annarra vestrænna þjóða, meðal annars bjórsiðum þeirra . Þessi opnun, bæði inn og út á við, gróf smám saman undan samfélagslegum forsendum bjórbannsins. Andstaðan við bjórinn var mest meðal þingmanna úr dreifbýli og meðal flokka sem kenndu sig við alþýðuna, en með auknum stuðningi við bjórsölu og hraðri þéttbýlismyndun fjaraði undan andstöðunni og greinilegri flokkaskiptingu milli stríðandi fylkinga.

Áfengissala jókst og drógst saman á víxl

Áhrif lögleiðingar bjórs á heildarsölu áfengis og neyslumynstur

Áhrif lögleiðingar bjórs árið 1989 voru ekki að öllu leyti í samræmi við væntingar. Málsvarar bjórbannsins spáðu umtalsverðri aukningu á áfengisneyslu landsmanna í kjölfar lögleiðingar. Fyrsta árið jókst neyslan verulega en hún gekk þó fljótt til baka. Árið 1988, þegar bjórbannið var afnumið á Alþingi, nam árleg neysla af hreinum vínanda 3,39 lítrum á mann, en árið 1995 var hún aðeins örlítið meiri eða 3,6 lítrar . Árið 2007 höfðu tölurnar aftur á móti hækkað umtalsvert eða í alls sex lítra á mann. Athyglisvert er að sala á áfengi byrjaði að vaxa áður en bjórbanninu var aflétt. Árið 1966, svo dæmi sé tekið, nam árleg neysla af hreinum vínanda 2,33 lítrum á mann, en árið 1978 hafði hún aukist í 2,88 lítra.

Fleiri þættir en bann eða lögleiðing á bjór virðast því hafa áhrif á sölu áfengis. Samdráttur í hagkerfinu snemma á tíunda áratugnum dró úr kaupmætti Íslendinga sem að líkindum hélt aftur af bjór- og áfengissölu á þeim tíma. Seint á tíunda áratugnum og í byrjun 21. aldarinnar náði hagkerfið sér á strik á ný með meiri kaupmætti almennings og aukinni áfengissölu. Minnkandi áfengissölu varð sömuleiðis vart í kjölfar hrunsins árið 2008  en salan jókst á ný með batnandi efnahag almennings.

Bjórbanninu aflétt

Árið 1989 máttu Íslendingar loks kaupa bjór.

Aðrar breytingar í átt að frjálslyndari áfengisstefnu hafa einnig orðið á Íslandi á síðustu árum. Stefna stjórnvalda í áfengismálum hefur á síðari árum mótast æ meir af markaðssjónarmiðum. Árið 1954 hafði aðeins eitt veitingahús leyfi til að selja áfengi. Þau voru orðin 37 árið 1980, 148 árið 1988 og 322 árið 1994. Árið 2001 voru vínveitingaleyfin orðin 512 en fjölgun þeirra þá var einkum á landsbyggðinni. Árið 2017 eru leyfin aftur á móti komin vel yfir eitt þúsund.

Sömu þróun má sjá í fjölgun útsölustaða ÁTVR. Staðirnir voru aðeins sjö árið 1962, 24 árið 1994 en voru komnir yfir fimmtíu árið 2017. Frjálslyndari áfengisstefna sem birtist í fleiri sölustöðum, rýmri opnunartíma, og almennt meira aðgengi að áfengi, hefur því án vafa átt þátt í að auka áfengisneyslu í landinu og afnám bjórbannsins aðeins einn liður í þeirri aukningu.

Mikilvæg breyting hefur orðið á neyslu sterkra drykkja á síðustu áratugum. Um leið og bjórinn kom til sögunnar árið 1989 byrjaði að draga úr neyslu á sterku áfengi. Neysla léttvína nánast tvöfaldaðist og bjórsalan jókst enn meira á næstu árum. Á sama tíma dró úr neyslu á sterku áfengi og varð aðeins um helmingur þess sem hún var síðla á níunda áratug síðustu aldar . Bjórinn bættist því ekki einfaldlega strax við sterkvínsdrykkjuna sem margir bjórandstæðingar töldu líklegt að myndi gerast við afnám bannsins. Neyslan færðist frá sterkari drykkjum í áttina að veikari áfengistegundum.

Breytt viðhorf til áfengisneyslu

Nýir drykkjusiðir hafa látið á sér kræla á síðustu árum. Dregið hefur úr áberandi ölvunarástandi á almannafæri. Breytt viðhorf til áfengisneyslu hafa leitt til þess að fólk drekkur minna hverju sinni, en ef til vill við fleiri tækifæri en áður .

Bjórinn hefur ekki orðið til að auka drykkju ungmenna því mælingar ESPAD sýna að áfengisneysla grunnskólanemenda hefur minnka og er nú með því minnsta sem gerist í V-Evrópu.

Alþjóðleg langtímarannsókn (ESPAD) á áfengisneyslu skólanema á aldrinum 15 til 16 ára sýnir að gagnstætt því sem andstæðingar bjórsins óttuðust fækkaði nemendum sem drukku mikið áfengi á árunum 1995 til 2007 . Nýrri ESPAD-mælingar sýna að áfengisneysla grunnskólanemenda hefur haldið áfram að minnka og er nú með því minnsta sem gerist í V-Evrópu. Tilkoma bjórsins virðist ekki hafa leitt til meiri áfengisneyslu á vinnustöðum eða leitt til aukinnar neyslu meðal verkafólks á vinnustöðum eins og stuðningsmenn bjórbannsins spáðu.

Afnám bjórbannsins er að samanlögðu aðeins ein af mörgum ástæðum vaxandi áfengisneyslu á Íslandi á síðari árum. Íslendingar neyta þó enn minna áfengis en flestar aðrar vestrænar þjóðir, en bilið milli okkar og annarra hefur samt minnkað. Hugsanlega má halda því fram að drykkjuhegðun hafi almennt batnað á Íslandi, þótt ekki hafi dregið úr vandamálum tengdum áfengissýki. Um tvö þúsund manns hafa árlega komið til meðferðar hjá SÁÁ á undanförnum árum, þar af um þriðjungur í fyrsta sinn .

 

Heimildir:

Alþingi, (2017). Svar þáverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Nicole Leigh Mosty um fjölda vínveitingaleyfa.  http://www.althingi.is/altext/146/s/0363.html.

Ásgeir Guðmundsson, (1975). Saga áfengisbannsins á Íslandi. Reykjavík: Háskóli Íslands.

ÁTVR. Saga ÁTVR. Sótt af heimasíðu ÁTVR. https://www.vinbudin.is/heim/um_atvr/fyrirtaekid/tabid-2368/saga-%C3%A1tvr

ESPAD (2020). The ESPAD Report 2020: Results from the European School Survey Project on Alcohol and other Drugs.

Ferðamálastofa, (2022). Fjöldi ferðamanna. https://www.ferdamalastofa.is/is/tolur-og-utgafur/fjoldi-ferdamanna.

Hagstofa Íslands, (2022). Umfang áfengisneyslu á Íslandi. http://www.heilsuhegdun.is/afengi/annad/tolulegar-upplysingar/umfang-afengisneyslu-a-%C3%ADslandi/.

Hagstofa Íslands, (2017). Áfengisneysla á Íslandi. Sótt 26. maí 2017 af: https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/heilbrigdismal/afengisneysla-a-islandi/.

Helgi Gunnlaugsson, (2009). Lögleiðing bjórs á Íslandi: Félagsleg átakamynstur og afnám bannsins. Í Rannsóknir í félagsvísindum X Félags- og mannvísindadeild, bls. 61-72. Ritstjórar Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Morgunblaðið, (2009, 1. mars). Teygaður í tuttugu ár, bls. 8.

OECD Health Statistics. 2020.

Visir.is, (2009, 16. júlí). Sala á húsgögnum hrynur.  http://www.visir.is/g/2009143713237/sala-a-husgognum-hrynur.

Þóroddur Bjarnason, (2009). Vímuefnaneysla íslenskra unglinga í alþjóðlegum samanburði. Akureyri: Rannsóknasetur forvarna við Háskólann á Akureyri.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -