„Mér er neitað um að sjá sjálfsvígsbréf sonar míns í heild sinni,“ segir Tómas Ingvason, faðir Ingva Hrafns Tómassonar sem lést 31 árs í fangelsinu á Litla-Hrauni tveimur dögum eftir að hann bað árangurslaust um hjálp vegna andlegra erfiðleika í kjölfar þess að hann var kærður og frelsissviptur. Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins. Tómas hefur óskað eftir því að sjá kveðjubréf sonar síns í heild sinni en fær engin svör önnur en þau að vegna rannsóknarhagsmuna verði lögreglan að halda bréfinu.
„Löggan svarar engu,“ segir Tómas í samtali við Mannlíf.
Sonur Tómasar lést sama dag og bróðir hans lést sviplega fyrir sex árum. Jarðarför Ingva Hrafns fór fram í gær.
Í kvöld kl. 20 birtist einkaviðtal við Tómas á hlaðvarpi Mannlífs þar sem hann rekur sorgarsöguna að baki andláti tveggja sona sinna og lýsir baráttu sinni fyrir réttlæti og úrbótum.