Meira var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag en í nótt, samkvæmt dagbók hennar.
Tilkynnt var um aðila sem barði leigubílstjóra í miðbænum. Var farþeginn afar ósáttur við verðlagninguna á farinu og réðist á bílstjórann. Komst hann undan á hlaupum en málið er í rannsókn.
Innbrot var tilkynnt í miðbænum og í Laugardalnum barst tilkynning um sofandi aðila í garði sem hann átti ekki sjálfur.
Þá barst tilkynning um ógnandi aðila í Kópavoginum en engar frekari upplýsingar gaf lögreglan upp um það mál.
Í Breiðholtinu keyrði ökumaður bifreið sinni á aðila á reiðhjóli en ekki kom fram í dagbókinni hvers lags meiðsli aðilinn hlaut.
Í Grafarvoginum var lögreglu tilkynnt um þjófnað sundlaugagests. Þá féll manneskja á reiðhjóli í Grafarholtinu og hlaut áverka á vinstri handlegg.