Þrír einstaklingar undir 18 ára aldri voru stungnir rétt fyrir miðnætti í gær við Skúlagötu í Reykjavík. Einn af þeim er í lífshættu eftir árásina.
Að sögn lögreglu er árásarmaðurinn einnig undir 18 ára en hann var handtekinn heima hjá sér nokkrum klukkutímum eftir að árásin átti sér stað. Mikill viðbúnaður lögreglu var í miðbænum í gær vegna Menningarnætur og voru margir í bænum en þónokkur vitni voru að árásinni.
Samkvæmt lögreglu eru allir einstaklingarnir Íslendingar en ekki liggur fyrir hvort tengsl séu á milli árásarmannsins og brotaþola. Málið er ennþá til rannsóknar lögreglu og útilokar hún ekki að um manndrápstilraun sé að ræða.
„Oft er þetta þannig að hlutir gerast hratt, þannig að það er kannski ekki neinn möguleiki til að bregðast við. Svo er þetta á þessu kvöldi, skömmu eftir flugeldasýninguna, og þarna eru kannski ung börn í fylgd með foreldrum sínum, þannig að þetta hefur verið ljót aðkoma fyir marga,“ sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við RÚV.