Eitt og annað hefur gengið á hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag, samkvæmt dagbók hennar.
Barn slasaðist er það féll úr rólu í Laugardalnum. Eftir fallið fann barnið til í annarri hendinni.
Þá barst lögreglu tilkynning um þjófnað úr verslun í Kringlunni og var einn einstaklingur handtekinn. Er hann nú vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að taka skýrslu af honum en hann reyndist moldfullur við handtöku.
Bifreið var stöðvuð í Efra-Breiðholti en ökumaðurinn var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Einnig kom í ljós að hann reyndist sviptur ökuréttindum vegna fyrri afskipta lögreglu. Nákvæmlega sama má segja um ökumann sem stöðvaður var í hverfi 110, fegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Reyndist hann einnig sviptur ökuréttindum.