Karlmaður veittist að tæplega 12 ára stúlku sem var á leið í Víðistaðaskóla í morgun en hún náði að bíta hann og sparka sig lausa. Er þetta fjórða tilfellið um svipað atvik á rúmlega þremur vikum í hverfinu.
Mannlíf sagði frá því á dögunum að maður í appelsínugulri úlpu hefði veist að nokkrum krökkum í Norðurbæ Hafnarfjarðar en talið er að maðurinn sé af erlendu bergi brotinn. Í morgun var svo tilkynnt um fjórða tilfellið en lögreglan getur þó ekki staðfest að um sama mann sé að ræða.
Sjá einnig: Karl með yfirvararskegg herjar á börn í Hafnarfirði:„Fólk slegið og óöruggt að senda börnin ein út“
Móðir tæplega 12 ára gamallar stúlku skrifaði eftirfarandi færslu á íbúðasíðu hverfisins á Facebook:
„Varúð!
Þetta var nálægt sparkvellinum við víðistaðaskóla en rétt fyrir utan það svæði sem myndavélar skólans ná á.“
Mannlíf heyrði í Skúla Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjón lögreglunnar í Flatahrauni í Hafnarfirði. Segir hann að málið sé hið fjórða á rúmlega þremur vikum sem tilkynnt hafi verið til lögreglunnar, þar sem karlmaður veitist að börnum. „Við fengum tilkynningu í morgun um það atvik en þar er maður sem veitist að tæplega 12 ára stúlku og hún kemst undan honum. Og við erum í raun bara leitandi að þeim manni og erum með það til rannsóknar. En við erum ekki búin að hafa upp á honum.“
Aðspurður hvort um sé að ræða sama mann og í hinum málunum segir Skúli að ekki sé hægt að staðfesta það með óyggjandi hætti. „Við vitum það í rauninni ekki fyrir víst. Lýsingarnar koma náttúrulega frá börnum og þetta eru flottar lýsingar en þetta ber svo sem ekki allt saman en þetta eru fjórar tilkynningar á rúmlega þremur vikum og við erum í raun með það allt saman undir en við erum ekki búin að hafa upp á honum en erum með þetta til rannsóknar og leggjum áherslu á að hafa upp á þessum manni.“
Móðir stúlkunnar segir í samtali við Mannlíf að dóttir hennar sé mjög brugðið. „Hún er í sjokki og aum í hálsinum og rám eftir hálstakið,“ segir móðirin og bætir við að búið sé að fá áverkavottorð að málið sé komið í kæruferli.