Skipulagsstofnun hefur samþykkt aðalskipulagsbreytingu í sveitarfélaginu Dalabyggð. Aðalskipulagsbreytingin hefur í för með sér leyfi fyrir tveimur vindorkuverum á landi Hróðnýjarstaða og Sólheima, þvert á vilja stórs hluta samfélagsins. Ásmundur Einar Daðason ráðherra er landeigandi á svæðinu.
Á fréttavefnum visir.is er greint frá samþykki Skipulagsstofnunar á aðalskipulagsbreytingu í sveitarfélaginu Dalabyggð. Í greininni er rætt við Andrés Skúlason, verkefnastjóra Landverndar, sem hefur fylgst náið með þróun þessara mála og setur spurningarmerki við ýmis atriði og þykir fnykur af málinu í heild.
Andrés bendir á að það skjóti skökku við og kveðst viss um að frændhygli innan Framsóknar sé þess valdandi að það sem áður var hafnað á grundvelli laga sé nú samþykkt. Eins og áður hefur komið fram er Ásmundur Einar Daðason landeigandi og hefur verið í stórtækum jarðarkaupum á svæðinu. Stundin fjallaði um kaup Ásmundar og fjölskyldu hans árið 2018.
„Innviðaráðherra átti náttúrulega enga aðra úrkosti en að fara eftir tillögu Skipulagsstofnunar og synja Dalabyggð fyrst um breytinguna, því hún var ekki í samræmi við lög. En það er algjörlega ljóst að eitthvað hefur gerst í millitíðinni sem verður þess valdandi að það liggur svona á að keyra þetta í gegn. Og þá skulum við ekkert horfa fram hjá því að þetta er fyrsta skipulagið sem er staðfest fyrir erlent orkufyrirtæki… Það er bara óvart í landi sem er ekki óskylt Framsóknarflokknum. Það er pólitísk nálykt af þessu,“ segir Andrés í samtali við Vísi.
Ekki náðist í Ásmund Einar við vinnslu fréttarinnar.