Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Beiðni Auggie Duffy um áfrýjun til Hæstaréttar hafnað: „Þetta er auðvitað mikill léttir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Beiðni manns, sem Landsréttur sakfelldi fyrir nauðgun í febrúar síðastliðnum, um að áfrýja málinu til Hæstaréttar, hefur nú verið hafnað. Dómur Landsréttar, sem hljóðar upp á tveggja og hálfs árs fangelsisvist, stendur því. Enn er óvíst hvenær maðurinn hefur afplánun dómsins.

Maðurinn sem um ræðir heitir Augustin Dufatanye en er betur þekktur undir nafninu Auggie Duffy. Brotið var framið í mars árið 2019 en fjallað er ítarlega um málið í nýjasta tímariti Mannlífs. Þar er einnig rætt við brotaþolann, konu sem lýsir nóttinni hrikalegu þegar stjórnin var tekin af henni, þriggja ára baráttu í gegnum réttarkerfið og loks bið og óvissu á meðan maðurinn sem braut á henni gengur enn laus. Konan gat enga björg sér veitt nóttina sem brotið var framið, sökum svefndrunga og ölvunarástands.

 

„Mér var tjáð að þessu væri lokið“

Auggie Duffy áfrýjaði sakfellingardómi Héraðsdóms yfir honum en Landsréttur staðfesti dóminn. Þá sendi hann inn beiðni um áfrýjun dóms Landsréttar til Hæstaréttar í apríl síðastliðnum.

„Ég komst að því nýlega fyrir slysni að maðurinn væri ekki enn kominn í fangelsi, vegna þess að hann hefði áfrýjað dómnum til Hæstaréttar,“ segir konan í samtali við Mannlíf.

„Þetta var mikið áfall; ég átti ekki von á þessu þar sem mér var tjáð að þessu væri lokið, eftir dóminn í Landsrétti.“

- Auglýsing -

Konan segist hafa eytt síðustu vikum í að endurræsa vefsíðu Hæstaréttar til að sjá hvort búið væri að úrskurða hvort beiðni Auggie Duffy um áfrýjun hefði verið samþykkt. „Í gær kom loks úrskurðurinn. Beiðninni var hafnað,“ segir hún. „Þetta eru ekki upplýsingar sem ég fékk frá yfirvöldum, heldur þurfti ég að leita eftir þeim sjálf.“

Augustin Dufatanye, eða Auggie Duffy.

Gæti seinkað afplánun

Bið brotaþola ætti því fljótlega að vera á enda. Fangelsismálastofnun hefur nú fjórar vikur til þess að boða Auggie Duffy í afplánun. Þegar hann fær boðunina getur hann þó sótt um frest vegna persónulegra mála, sem þannig getur seinkað afplánun enn frekar, eða um þrjá mánuði. Fresturinn er til að mynda hugsaður fyrir fjölskyldufólk til þess að það hafi nægan tíma til ráðstafana. Möguleikinn er þrátt fyrir það opinn öllum.

„Þetta er auðvitað mikill léttir og ég upplifi þetta sem ákveðin endalok, þar sem ég veit núna að ég mun ekki þurfa að fara í réttarhöld í þriðja sinn. Mér líður hins vegar enn ekki eins og ég sé örugg – hann er ekki kominn í fangelsi.“

- Auglýsing -

 

Engar hömlur á ferðum hans

Konan hefur áður í samtali við Mannlíf lýst miklum ótta í tengslum við að maðurinn sem braut á henni gangi laus. Hún hafi til að mynda séð hann fyrir utan vinnustað hennar, sem hafi vakið hjá henni sterk einkenni áfallastreitu. Hún hafi ekki þorað út af vinnustaðnum lengi á eftir.

„Það gætu enn verið fjórir mánuðir þar til hann er kominn í fangelsi. Á meðan hann bíður eru engar hömlur á ferðum hans – hann er frjáls á meðan.“

Auggie Duffy hefur ávallt neitað sök og ekki sýnt iðrun fyrir dómi. Gögn úr eftirlitsmyndavélum, framburður vitna og gögn úr snjalltækjum þóttu ýta undir trúverðugleika konunnar en draga úr trúverðugleika hans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -