Egill Helgason bendir á hversu óvenjuleg stjórnarskiptin verða um helgina.
Í dag verður ný ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokk fólksins kynnt og er þess beðið með mikilli óþreyju að fá að vita hver sest í hvaða ráðherrastól. Egill Helgason fjölmiðlamaður bendir á í nýlegri Facebook-færslu að stjórnarskiptin nú verði að einhverju leyti óvenjuleg, þar sem meðal annars sé um hrein stjórnarskipti að ræða sem ekki gerist oft á Íslandi. Þá hefur aðeins einn væntanlegur ráðherra áður setið í ríkisstjórn.
„Sumpart óvenjuleg stjórnarskipti nú um helgina. Í fyrsta lagi eru þetta hrein stjórnarskipti – það er að segja alveg nýir flokkar sem taka við. Það gerist ekki oft á Íslandi í okkar kerfi samsteypustjórna – seinast 2013, þar áður 1971. Aðeins einn væntanlegur ráðherra hefur áður setið í ríkisstjórn – Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Og aðeins þrír þingmenn hafa áður verið í stjórnarliði – Þorgerður, Hanna Katrín Friðriksson og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Annars allt nýgræðingar. Annað er ekki við hæfi í upphafi en að óska stjórninni velfarnaðar. (Bæti við Lilju Rafney sem mér yfirsást og er þarna nokkuð óvænt.)“