Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, biðlar til Grindvíkinga um að vera ekki að sofa í bænum en talið er að gosið gæti á hverri stundu.
„Það hefur verið talsverð skjálftavirkni síðasta sólarhringinn en það gengur nú stundum í hviðum. En frá viku til viku er hún vaxandi,“ sagði Benedikt við Vísi um málið en taldar eru líkur á hraunflæði og sprunguhreyfingum innan bæjarins.
Sammála lögreglustjóranum
Úlfur Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, ítrekaði í fjölmiðlum í gær að fólk væri á eigin ábyrgð á svæðinu og bað fólk ekki að sofa í húsum sínum í Grindavík en gist var í um 20 húsum í gærnótt. „Það er ekki sniðugt að vera með fólk sofandi þarna inni ef það gerist í fyrsta hluta þegar þetta er að opnast og við náum ekki að rýma. Þetta er spurning um öryggi,“ sagði Benedikt.
Hann sagði sömuleiðis að það sé sérstaklega vafasamt að gista í norðurhluta bæjarins en ekki er útilokað sprunga opnist mjög nálægt bænum og mögulegt sé að næsta sprunga opnist í bænum sjálfum.