Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.8 C
Reykjavik

Besti dómari Íslandssögunnar – Sigmundur Már: „Skammirnar fara á búninginn sem fer svo í þvott“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Það er á engan hallað þegar fullyrt er að Sigmundur Már Herbertsson sé besti körfuboltadómari Íslands fyrr og síðar.

Um það vitnar sú ótrúlega staðreynd að hann hefur fjórtán sinnum verið valinn dómari ársins, en þessi toppmaður setti nýtt met í leik Stjörnunnar og Tindastóls í Subway-deild karla í körfubolta í síðasta mánuði; Sigmundur Már dæmdi þá sinn 2054. leik fyrir Körfuknattleikssambands Íslands; KKÍ segir frá því að með þessu sé Sigmundur orðinn leikjahæsti dómari sögunnar í leikjum á vegum KKÍ; sló met Rögnvaldar Hreiðarssonar sem dæmdi 2053 leiki fyrir KKÍ áður en hann lagði flautuna á hilluna eftir síðasta tímabil.

Þá var Sigmundur Már FIBA dómari til ársins 2018, en varð þá að hætta vegna aldurs þótt hann hafi sjaldan eða aldrei verið betri en einmitt nú; alls dæmdi Sigmundur Már 233 alþjóðlega leiki; hann varð fyrsti íslenski dómarinn til að dæma á EuroBasket, gerði það árið 2015.
Heiðursmaðurinn Sigmundur Már er í Kvöldviðtali Mannlífs.
Besti dómarinn árið 2021, í fjórtánda sinn! Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ með Simma á myndinni

Hver er Sigmundur Már? Segðu mér aðeins frá sjálfum þér.

„Ég hef alltaf átt heima í Njarðvík og ólst upp á Holtsgötu 41. Fæddur 1. ágúst 1968 og foreldrar mínir eru Herbert Svavarsson húsasmíðameistari og Margrét Karlsdóttir ljósmóðir sem bæði eru látin. Ég er giftur Sigurbjörgu Eydísi Gunnarsdóttur leikskólakennara og jógaleiðbeinanda barna. Synir okkar eru Herbert Már og Gunnar Már“ segir Sigmundur Már sem dagsdaglega starfar sem umsjónarmaður fasteigna í Njarðvíkurskóla.

Sigmundur Már byrjaði að æfa körfubolta ungur að árum og „fyrsti þjálfarinn minn var Ted Bee sem spilaði þá með Njarðvík og á þessum tíma var gríðarlegur körfuboltaáhugi í bæjarfélaginu og það hafði áhrif á að við vinirnir fórum að æfa.

Ég spilaði í yngri flokkum með Njarðvík og einnig á ég nokkra leiki með meistarflokki. Þá á ég einnig tvo Evrópuleiki gegn Bayer Leverkusen árið 1989. Ég æfði og spilaði einnig með Víði Garði, Reyni Sandgerði og Ungtemplarafélaginu Hrönn. Á ferli mínum var ég ágætis þriggja stiga skytta og fór helst ekki inn fyrir þriggja stiga línuna.“

Sigmundur Már segir aðspurður að það hafi eiginlega verið tilviljun að hann byrjaði í dómgæslunni:

- Auglýsing -

„Þetta var árið 1994 – vinnufélagi minn á þessum tíma sem er úr Grindavík og heitir Jón Emil Halldórsson hvatti mig til þess að prófa dómgæsluna. Hann var viðloðandi körfuboltann í Grindavík og þá vantaði dómara til að dæma fyrir félagið. Á þessum tíma þurftu félögin að útvega dómara sem dæmdu á vegum félagsins. Þetta vakti áhuga minn á því að fara á dómaranámskeið en það varð þó úr að ég fór á námskeiðið fyrir mitt félag, Njarðvík.

En þess má geta að sú breyting varð fyrir nokkrum árum að allir dómarar eru ófélagsbundnir.“

- Auglýsing -

Og þá er spurt, hvað eru leikirnir sem þú hefur dæmt orðnir margir?

„Ég byrjaði að dæma í efstu deildum árið 1995. Í dag er ég að kominn með rúmlega tvö þúsund skráða KKÍ leiki, en þá eru ekki taldir með æfingaleikir og æfingamót. Árið 2003 tók ég FIBA dómararéttindi og hef ég dæmt yfir tvö hundruð leiki í fjölmörgum Evrópulöndum. Hápunkturinn í dómgæslunni hjá mér var árið 2015 þegar ég var valinn af FIBA til að dæma á Eurobasket karla í Riga í Lettlandi. Þar dæmdi ég fjóra leiki.“

Stundum er sagt að dómarar fái ekkert nema skít og skammir fyrir vel unnið og nauðsynlegt starf – þú ert búinn að vera lengi að, hver er galdurinn og hvað færðu út úr starfinu, hvað veitir dómgæslan þér?

„Fyrir mér er dómgæslan lífsstíll og hefur verið það frá upphafi. Galdurinn er að koma alltaf vel undirbúinn í leiki, líkamlega og andlega. Það er virkilega skemmtilegt og gefandi að vera hluti af þessari íþrótt sem ég hef ástríðu fyrir. Þetta er líka félagslegt og mikið samstarf milli dómara. Það hefur líka gefið mér mikið að leiðbeina yngri dómurum sem eru að stíga sín fyrstu skref á ferlinum. Góður dómari lætur ekki skít og skammir sem koma úr stúkunni hafa áhrif á sig. Hann heldur einbeitningu. Skammirnar fara á búninginn sem fer svo í þvott.“

Hvað hefur breyst í dómgæslu og í leiknum sjálfum á þeim langa tíma síðan þú varst að spila og byrjaðir að dæma?

„Það er orðið miklu meira um faglegan undirbúning dómara. Mjög margir leikir eru í beinni útsendingu í sjónvarpi sem gefur okkur kost á að skoða okkar leiki. Að loknum leik getur maður greint leikinn, farið yfir vafaatriði og lært af þeim mistökum sem maður gerir. Umfjöllunin og beinar útsendingar hjá Stöð 2 Sport er meira en gengur og gerist í öðrum löndum í Evrópu.

Það hefur vakið áhuga og undrun erlendra dómara sem ég þekki. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hér á landi hvað við fáum að sjá mikið af beinum útsendingum af íslenskum körfubolta og mikla umfjöllun. Það er ekki sjálfgefið og ber að þakka.

En stærsta breytingin inni á vellinum hjá okkur dómurum varð þegar við fórum yfir í þriggja dómara kerfið sem að mínu mati gerir dómgæsluna og leikinn betri. Leikurinn sjálfur er orðinn miklu hraðari og meiri íþróttamennska hjá leikmönnum í karla-  og kvennaboltanum en áður var.

Fleiri leikmenn hafa gerst atvinnumenn erlendis og held ég að styttist í að við eignumst aftur leikmann í NBA.”

Hvernig heldurðu þér við sem dómari?

„Líkamlegi þátturinn er stór og felst meðal annars í því að hlaupa og gera styrktaræfingar, og við dómarar tökum  þrekpróf tvisvar á ári,“ segir Sigmundur Már og bætir við:

„Mataræðið skiptir máli bæði fyrir líkamlega og andlega líðan og þá er faglegi undirbúningurinn  af  ýmsum toga. Við körfuboltadómarar á Íslandi erum þátttakendur í ungverskum vef ásamt nokkrum öðrum þjóðum þar sem við þurfum að taka próf á tíu daga fresti. Það eru reglupróf, vídeópróf og próf varðandi staðsetningar á leikvelli.

Einnig þurfum við að dæma út frá „klippum“ sem eru settar inn á ungverska vefinn þar sem valmöguleikarnir eru nokkrir, og fáum við niðurstöður innan nokkurra daga. Þetta er gert til að samræma dómgæslu í Evrópu. Einnig hef ég alltaf skoðað mína leiki mjög vel og hlustað á fagleg ráð frá öðrum.“

Eru einhver aldurstakmörk í dómgæslunni?

„Á Íslandi eru engin aldurstakmörk varðandi það hvenær dómari þarf að hætta vegna aldurs. Aftur á móti hefur FIBA þær reglur að dómarar þurfa að hætta að dæma þegar þeir verða fimmtugir.“

En hvernig fer Sigmundur Már að því að sameina dómgæsluna, hversdaginn og fjölskyldulífið?

Fallega fjölskyldan hans Sigmundar Más

„Það hefur alltaf gengið upp því ég á mjög skilningsríka fjölskyldu sem hefur alltaf stutt mig í öll þessi ár.

Fjarverurnar að heiman hafa oft verið miklar í gegnum tíðina, bæði hér heima og erlendis.

Oft hef ég fórnað ýmsu fyrir dómgæsluna en með samþykki fjölskyldunnar. Því tengt má til gamans geta að við fjölskyldan ætluðum öll saman á Eurobasket í Berlín 2015. Um leið og ljóst var að Ísland myndi taka þátt þá bókuðum við flug, gistingu og keyptum miða á alla leiki Íslands. Nokkrum mánuðum síðar hringdi ég í eiginkonuna og sagðist bæði vera með góðar og slæmar fréttir. Ég sagði henni að ég hefði verið valinn af FIBA til að dæma á Eurobasket í riðlinum sem fram fór í Riga í Lettlandi á sama tíma. Þannig að hún fór ein með strákana okkar til Berlínar en ég til Riga.

Án stuðnings fjölskyldunnar í gegnum árin hefði ég ekki getað náð svona langt á þessu sviði,“ segir Sigmundur Már sem næst er spurður hvort honum finnist að dómarar í boltaíþróttum eigi að fá að tjá sig eftir leiki eins og þjálfarar og leikmenn gera ef eftir því er leitað.

„Að minu mati er ekki gott að tjá sig strax eftir leik, því það er gott að geta skoðað betur ýmis atvik og svarað þá ef þörf er á. Það hefur ekki tíðkast að dómarar tjái sig um og eftir leiki og ég er ekki viss um hvort það sé rétta leiðin.“

Að lokum, hver eru helstu áhugamál þín og hvernig verðu frítíma þínum?

Dómgæsla, körfubolti og að horfa á margar aðrar íþróttir eru mín helstu áhugamál. Ég hef mikinn áhuga á að halda mér í góðu líkamlegu formi; bæði með því að fara í ræktina, stunda útihlaup og gönguferðir úti í náttúrunni með hundinn okkar hann Skugga. Ferðalög innalands og erlendis eru alltaf skemmtileg.  

Áhugi minn á eldamennsku hefur aukist og mér finnst gaman að elda góðan mat fyrir fjölskyldu og vini.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -