Ýmis hörð ummæli féllu í vikunni. Hér eru nokkur þeirra.
„Hann er sérstök blaðsíða. Án þess að hans ferill hafi verið kannaður sérstaklega mætti auðveldlega ætla að hann hefði átt erfiða æsku.“
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hæðist að Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samylkingarinnar, í leiðara sínum. Tilefnið er uppnám sem varð á Alþingi fyrr í vikunni þegar Bjarni Benediktsson fjarmálaráðherra rauk út úr þingsal eftir ásakanir um að hafa brotið lög um opinber fjármál.
„Við keyptan ritstjóra, vil ég segja. Það er betra að vera sérstök blaðsíða sem tekur á slöppum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í Samherjamálinu en að vera lélegur pappír sem er ætlað að afvegaleiða þá mikilvægu umræðu.“
Ágúst Ólafur Ágústsson svarar fyrir sig.
„Ætlum við að vera viðföng í sögu sem firrt fólk skrifar, lygasögu ritaðri af alkemistum auðræðisins, þeim sem leggja nótt við nýtan dag að standa vörð um óbreytt ástand til þess eins að hin ríku verði ríkari á kostnað allra annara?“
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í ræðu í tilefni af mótmælunum á Austurvelli um síðustu helgi.
„Þeir senda Elliða og Sigríði Andrersen í sjónvarpsþætti til að leggja fyrir okkur einhvers konar siðferðislegan ramma, eins og þessir gjörspilltu fúskarar geti sett okkur einhvers konar línu.“
Atli Þór Fanndal blaðamaður.
„Sagði þessi maður í alvöru – og það í ræðu á Austurvelli – að ég (og Sigríður Á. Andersen) væri „gjörspilltur fúskari“? Að ég væri sem sagt sekur um alvarleg brot svo sem spillingu? Og klappaði fólkið sem gagnrýndi fyllerísraus á Klausturbar fyrir þessari orðræðu?“
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
„Kjarabarátta BÍ fer líklega í sögubækurnar fyrir að vera ein sú misheppnaðasta.“
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, gagnrýnir frétt á vef Blaðamannafélagsins þar sem fyrirsögnin er þá leið að meðallaun hjá Árvakri, sem gefur út Morgunblaðið og heldur úti mbl.is, hafi hækkað um 10 prósent í fyrra. Þórður finnur að því að félagið birti frétt þar sem enginn greinarmunur er gerður á almennum launum blaðamanna og stjórnenda, en ritstjórar Árvakurs eru með samtals 110 millónir á ári í laun.
„Stéttarfélag birtir áróður gegn félagsmönnum sínum. You can’t make this shit upp.“
Atli Fannar Bjarkason, verkefnastjóri samfélagsmiðla og vefmiðlunar á RÚV.
„Umræðan um Samherja hér á Akureyri er svona eins og að eiga nákominn frænda sem er dópsali og ofbeldismaður en hann á lítið barn þannig að við skulum gefa honum séns … Þetta heitir meðvirkni á þeirri íslensku sem mér var kennd.“
Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri og fyrrverandi starfsmaður Samherja.