Um 350 bílastæði Bláa lónsins eru komin undir hraun eftir að eldgos hófst í gærkvöldi en varnargarður verndar lónið sjálft og aðrar byggingar sem staðsettur vestan við Bláa lónið. Ljóst er að um tjón sé að ræða fyrir fyrirtækið.
„Það er ómögulegt að segja til um tjónið á þessum tímapunkti en við munum sjá þetta betur þegar fram líða stundir og þá hvernig hægt verður að bregðast við. Það eru einhverjir bílastæðamöguleikar við lónið en við þurfum að skoða það betur í framhaldinu,“ sagði Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu, við mbl.is um málið.
Talið er þó ólíklegt hraunið fari yfir varnargarðinn og eyðileggi mannvirki Bláa lónsins að mati Runólfs Þórhallssonar en hann er settur sviðsstjóri almannavarna. Runólfur segir að verktakar með vinnuvélar og efni séu að vinna hratt og örugglega til að loka fyrir gat í varnargarðinum sem var haft opið til að umferð gæti farið þar í gegn.