Starfsfólk skemmtistaðar í miðbænum hafði samband við lögreglu í gærkvöldi vegna manns sem var orðinn æstur inni á staðnum. Þegar lögreglu bar að garði var maðurinn kominn út af staðnum og hann beðinn um að fara ekki aftur inn. Síðar um kvöldið var lögregla kölluð til vegna aðila sem hafði fallið tvo metra ofan í holu í hverfi 104. Sá hlaut minniháttar áverka eftir fallið og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Maður í annarlegu ástandi veittist að farþegum í strætisvagni í Kópavogi í gær. Farþegunum var brugðið og handtók lögregla manninn sem var því næst vistaður í fangageymslu lögreglu. Í sama hverfi hringdi óttaslegin húsráðandi á lögreglu eftir að flugelda hafði verið kastað í hús viðkomandi. Engar skemmdir urðu á húsinu en íbúanum var mjög brugðið. Þá sinnti lögregla hefðbundnu umferðareftirliti og stöðvaði nokkra sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum vímuefna.