Birgir Sævarsson, kennari og tónlistarmaður, hefur undanfarin þrjú ár verið í nauðvörn vegna ásakana um að hafa brotið gegn þremur konum. Honum var sagt upp störfum í Foldaskóla í framhaldi af ásökunum og fékk ekki lengur vinnu sem tónlistarmaður. Honum var slaufað. Í haust var hann sýknaður fyrir Landsrétti. Áður hafði tveimur málum verið vísað frá. Birgir segir sögu sína í fyrsta sinn í viðtali við Reyni Traustason í hlaðvarpi Mannlífs. Hann reyndi í tvígang að taka líf sitt.
„Ég var búinn að ákveða það að ég ætlaði að hoppa fram af svölunum heima hjá mér. Ég bjó uppi á sjöttu hæð. En ég fékk mér viskí í rólegheitunum en hef nú ekki verið mikill drykkjumaður þó mér finnist alveg gaman að fá mér í glas en ekki í svona tilgangi. Ég sendi skilaboð á mína fyrrverandi og sagði henni eitthvað dramatískt, passa krakkana og eitthvað. Ég ætlaði að gera þetta. Hún hringdi á sjúkrabíl og sjúkraflutningsmenn komu upp í íbúðina mína og reyna eitthvað að ræða við mig. Allt í einu var kippt í mig …,“ segir hann í viðtalinu.
Hrikaleg saga Birgis mun birtast í heild sinni á tv.mannlif.is klukkan 20 í kvöld.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.