Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Birgitta snýr aftur í Pírata eftir kosningar: „Meira pönk, minni umbúðir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Birgitta Jónsdóttir, sem tilkynnti árið 2018 að hún væri hætt í Pírötum, ætlar sér að snúa aftur í grasrótarstarf flokksins eftir kosningar. Árið 2021 gekk hún í Sósíalistaflokkinn en virðist nú ætla að snúa aftur „heim“.

Í færslu sem hún skrifaði í morgun á Facebook segir hún að Píratar þurfi ekki að vera stjórtækir og útskýrir af hverju flokkurinn varð skyndilega vinsæll rétt eftir að hún stofnaði hann með öðru góðu fólki:

„Píratar þurfa ekki að vera stjórntækir

Eitt mesta böl Pírata voru skyndilegar og óútskýranlegar vinsældir flokksins þegar hann var splunkunýr og átti bara þrjá þingmenn á þingi. Flokkurinn var ekki eiginlegur stjórnmálaflokkur heldur skilgreindi hann sig sem hreyfingu eða hreinlega partý sem hafði frjóan jarðveg og hugmyndafræði til að búa til öfluga grasrót. Markmið var að þróa hugmyndafræði valdeflingar almennra borgara sem gæti orðið að raunverulegu afli í íslensku samfélagi. Öllum var heimilt að leggja fram hugmyndir í kosningakerfi okkar – án þess að þurfa að vera skráðir í flokkinn. Það var tekið til umræðu í tilraunalýðræði okkar og nokkur mál náðu þannig inn á málaskrá Alþingis. En í kjölfar vinsælda kom hávær krafa um að Píratar þyrftu að vera stjórntækir og búa til stefnu í öllum málaflokkum og að helsta markmið okkar ætti að vera að komast í ráðherrastóla. Þetta gekk meira að segja svo langt að talað var um að búa til einhverja ímynd af mér sem Birgittu blíðu, algerlega furðuleg hugmynd að gera erkipönkara að einhverri glansmynd.“

Segir Birgitta einnig að í upphafi hafi markmiðið ekki verið að komast í ríkisstjórn.

„Þegar Píratar leystu landfestar var markmiðið ekki að komast í ríkisstjórn, heldur að finna leiðir til að vinna þvert á flokka óháð því hvaða stöðu við værum í. Að finna glufur í kerfinu til að gera stórar breytingar og nota skapandi hugsun til að vinna að langtímamarkmiðum. Það er alrangt að við höfum verið einhverskonar Samfylking light. Þingflokkurinn samanstóð af þremur þingmönnum, einn var nánast libertarian, annar var sannarlega alinn upp í Samfó en of frjálslyndur til að finna sig í þeim ranni. Sá þriðji var ég, sem skilgreini mig sem pragmatískan anarkista. Grasrótin innihélt allskonar fólk sem fannst það ekki eiga heima í þeim flokkum sem voru í boði, sér í lagi ungt fólk sem hafði alist upp á netinu og sá heiminn á annan hátt en hefðbundnir flokkar.“

- Auglýsing -

Birgitta gefur einnig góð ráð fyrir þá sem vilja bjóða sig fram til Alþingis:

„Besta ráð sem ég get gefið fólki sem sækir um atvinnu hjá þjóðinni og fær ráðningu er eftirfarandi: hafðu ávallt í huga að þetta er þitt fyrsta og síðasta kjörtímabil, þá mun löngunin til að halda áfram á þingi aldrei hafa áhrif á verk þín, heldur muntu nýta tíma þinn til fullnustu, án ótta við að vera ekki þingtækur eða stjórntækur. Í mínum huga er hinn sanna merking þess að vera stjórntækur að vera alveg sama hvað fólki í öðrum flokkum finnst um mann, að vera stjórntækur er að vera trúverðugur í augum þeirra sem treysta þér til að gæta að hagsmunum lands og þjóðar.“

Þá telur þingkonan fyrrverandi upp það sem henni finnst að Píratar eigi að standa fyrir:

- Auglýsing -

„Meira pönk, minni umbúðir. Erindi Pírata var og ætti enn að vera að tryggja mannréttindi í stafrænum heimi, upplýsingafrelsi, gagnsæi, tjáningafrelsi og aðgengi almennings að ákvarðanatöku um hluti sem varða hann með því að gefa fólki verkfæri til að upplifa raunverulega valdeflingu.“

Birgitta segir síðan að það hafi verið sér heiður að vinna með Pírötunum Mumma Tý og
Ölfu Eymarsdóttur sem bjóða sig fram fyrir flokkinn í Suðurkjördæmi:

„Það hefur verið mér sannur heiður að fá tækifæri til að vinna með mínum fyrrum yfirmanni í Götusmiðjunni, erkiPíratanum honum Mumma Tý, og henni Ölfu Eymarsdóttur sem hefur unnið það þrekvirki að koma á dagskrá réttindabaráttu smábátasjómanna ásamt öllu því frábæra fólki sem kennir sig við Suðurkjördæmi í aðdraganda þessara kosninga. Það verður spennandi að vinna aftur í grasrót flokksins eftir kosningarnar með fólkinu sem enn brennur fyrir grunngildum Pírata og því erindi sem flokkurinn stóð eitt sinn fyrir.“

Að lokum segir Birgitta það jákvætt að sjá Lenyu Rún „geysast fram á sviðið“ og óskar nýjum oddvitum Pírata góðs gengis um næstu helgi.

„Þótt Píratar hafi að einhverju leiti orðið að einskonar diet Samfylkingu undanfarin ár þá er mjög jákvætt að sjá nýtt fólk eins og Lenyu geysast fram á sviðið. Hún fékk yfirgnæfandi stuðning í prófkjöri Pírata til að taka að sér forustuhlutverk í flokknum og leiða hann aftur að grunngildum þeim sem allt var byggt á og með sanni aðgreindu Pírata frá öðrum flokkum. Um nokkra hríð þótti meira að segja töff að vera Pírati, í því fólst yfirlýsing um að vilja alvöru breytingar og uppræta aldagamlar hefðahelgar og inngróna spillingu. Það er gott markmið að stefna að og óska ég nýjum oddvitum Pírata alls hins besta og góðs gengis um næstu helgi.“

Mannlíf hafði samband við Birgittu og spurði hana hreint út, hvort hún sé snúin aftur í sinn gamla flokk. Svaraði Birgitta um hæl:
„Ég yfirgaf aldrei Pírata. Sum þeirra yfirgáfu mig en ég mun byrja af fullum krafti í grasrótarstarfi eftir kosningar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -