Birta Birgisdóttir er 26 ára frístundaleiðbeinandi en hún hefur unnið á frístundaheimili og í félagsmiðstöð undanfarin sex ár. Birta er alin upp í Hlíðunum en býr núna í Laugardalnum með Daníel Alvin, unnusta sínum, stjúpsyni og nýfæddum syni. Birta elskar að ferðast, syngja og teikna ásamt að kynna sér fata- og húsgagnahönnun. Birta er neytandi vikunnar.
Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu?
Já, ég pæli mjög mikið í því. Sérstaklega þegar kemur að stærri hlutum, þá er ég líkleg til að draga upp Excel skjalið og sitja heillengi yfir því.
Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?
Ég reyni að vera dugleg að fara vel yfir ísskápinn minn og allan mat áður en ég fer í búðina. Þá get ég betur ákveðið hvað á að vera í matinn út vikuna miðað við hvað er nú þegar til og þarf þá ekki að kaupa eins mikið.
Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?
Já, ég pældi sérstaklega mikið í því þegar ég var ólétt. Ég keypti nánast ekkert nýtt handa syni mínum. Það sem að ég fékk ekki gefins eða lánað frá fjölskyldu og vinum keypti ég notað í Barnaloppunni, á Bland eða á Facebook Marketplace. Sparaði heilan helling á því.
Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?
Eins og ég nefndi áðan þá hef ég það í huga hvað ég á til heima þegar ég kaupi mat. Það hefur breyst mikið hvernig ég kaupi mér föt, ég fer ekki lengur inn í búðir og er bara að leita að einhverju flottu. Núna er ég frekar að leita að ákveðnum hlutum sem mig hefur lengi langað í eða virkilega vantar. Ef að ég rekst síðan á eitthvað fallegt sem ég var ekki að leita að sleppi ég því oftast að kaupa það og hugsa að ég komi aftur seinna ef að mig langar ennþá í þetta. Í langflestum tilfellum fer ég ekki aftur. Auðvitað hef ég alveg lent í því að fylgja þessari reglu minni ekki eftir og keypt eitthvað á staðnum en það gerist mjög sjaldan. Hvað varðar gjafir þá reyni ég nú bara að vera sniðug og kaupa eitthvað sem ég veit að einstaklingnum langar í eða myndi hafa gaman að. Í vinahópnum mínum þá sleppum við því líka stundum að gefa hvort öðru gjafir og förum frekar saman út að borða eða í leikhús.
Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?
Örugglega skyndibita, það getur verið freistandi eftir langan dag að panta bara pizzu frekar en að elda, sérstaklega á þriðjudögum.
Skiptir umhverfisvernd þig máli?
Já, að sjálfsögðu en það eru auðvitað hlutir sem ég gæti gert betur.
Annað sem þú vilt taka fram?
Nei.