Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mætti á fund fjárlaganefndar Alþingis ásamt fjórum starfsmönnum ráðuneytisins til að ræða sölu ríkisins á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka. Fundurinn hófst klukkan hálf níu í morgun.
Þingmönnum nefndarinnar og ráðherra var heitt í hamsi og gripu ítrekað fram í fyrir hvorum öðrum. Bjarni sakaði Eyjólf Ármannsson, þingmann Flokks fólksins, m.a. um að hafa ekki stjórn á sér. Þingmenn spurðu ráðherra oft um mögulegt vanhæfi hans þegar kom að sölunni þar sem að félag í eigu föður hans, Hafsilfur, var meðal þeirra sem keyptu hluti í bankanum.
Heldurðu að þú komist upp með þetta?
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata spyr Bjarna: „Bjarni, bara heldurðu í alvörunni að þú komist upp með að selja pabba þínum banka eftir allt sem að hefur gengið á undan,“ spurði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fjármálaráðherra á fundi fjárlaganefndar í morgun.
„Vafninginn, sjóð 9, sendiherra kapalinn, Falson og skýrsludótið, bara eftir allt þetta vesen sem að þú og flokkurinn er búinn að láta sko þjóðina ganga í gegnum á undanförnum áratug,“ taldi Björn Leví upp og var þá að vísa til alls þess sem gengið hafði á undan sölu ríkisins á Íslandsbanka.
Bjarni taldi einfaldlega aldrei neitt tilefni hafa gefist til að fara ofan í hæfnismatið.
Þá sagði hann að allir aðrir stjórnmálamenn, sem hafa snefil af virðingu fyrir siðmenntuðu samfélagi, væru búnir að segja af sér út af hverju einasta máli.
„Heldurðu í alvörunni að þú komist upp með þetta,“ spurði hann Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra aftur.
Bjarni tók ekki vel í þessi orð og sakaði Björn Leví um að halda uppi áróðri gegn sér.
„Ég hef bara aldrei átt í vandræðum með það að mæta kjósendum í þessu landi, ganga í gegnum kosningar, mæta þér og öðrum mótframbjóðendum, svara fyrir mig og mín mál. Uppistaðan af öllu því sem þú ert að telja er áróður.
Og nú gegnum við til kosninga í september síðastliðinn og það var einn þingmaður sem fór með fleiri atkvæði á bakvið sig heldur en nokkur annar sem að fékk kosningu í þeim Alþingiskosningum, og það er sá sem þú ert að tala við núna,“ svaraði Bjarni.
Björn Leví spurði þá aftur hvort ráðherra teldi hollt fyrir íslenskt samfélag að upplýsingar um að fjármálaráðherra hafi selt faðir sínum banka, skyldu koma upp eins og gerðist.
Bjarni sakaði Björn Leví enn og aftur um áróður og sagði hann það ekki standast skoðun.
Sala bankans undir rannsókn
Salan hefur sætt mikilli gagnrýni og hafa bæði fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og Ríkisendurskoðun hafið rannsókn á henni. Þá hefur verið kallað eftir því að Alþingi skipi rannsóknarnefnd í málinu en því hafa stjórnarflokkarnir hafnað, í það minnsta þar til niðurstaða í rannsóknum fjármálaeftirlits og Ríkisendurskoðunar liggur fyrir.
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, mættu á fund fjárlaganefndar á miðvikudag þar sem þeir fóru yfir söluna og svöruðu spurningum nefndarmanna.
Lög um peningaþvætti verið broti
Þá sagði Björn Leví það vera stjarnfræðilega ólíklegt að forstjóri og stjórnarformaður Bankasýslunnar hafi ekki gert sér grein fyrir að Hafsilfur, félagið sem keypti hluti í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn, hafi verið í eigu faðir fjármálaráðherra, Benedikts Sveinssonar.
Velti hann upp hvort það væri ekki skylda ráðherra að spyrja spurninga um hvort hann væri vanhæfur að taka ákvörðun í ferli sem er ekki almennt.
„Við vorum ekki í beinni sölu, við vorum að framkvæma útboð. Útboð þar sem við vorum með skilgreiningar á því hverjir gætu talist hæfir til þess að taka þátt. En ef að þingmaður er svona sannfærður um að stjórnsýslulög hafi verið brotin, hér hafi lög um peningaþvætti verið brotin, hér hafi lög um margar aðrar lagagreinar verið brotnar, þá hlýtur hann bara að vera rólegur því allt er þetta til skoðunar.“