Mánudagur 4. nóvember, 2024
7.8 C
Reykjavik

Bjarni Benediktsson bannaði blökkumanni að skemmta á Íslandi: „Einhliða og heimskuleg ráðstöfun“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 1947 hafði undirbúningur staðið yfir um langt skeið við að koma hinum heimsþekkta djassista, Rex Stewart til landsins ásamt hljómsveit sinni. Átti hann að koma fram á 2-3 tónleikum en allt kom fyrir ekki. Dómsmálaráðherran Bjarni Benediktsson setti lög sem bannaði erlendum tónlistarmönnum að koma til landsins. Þótti mörgum það skrítin tilviljun að þessi lög hafi verið sett rétt áður en blökkumaður boðaði komu sína með hljómsveit sinni.

Þjóðviljinn skrifaði harðorða grein um málið og spurði hvort um kynþáttaofsóknir væru að ræða:

Er Bjarni Ben. að heyja kynþáttaofsóknir hér á landi?

Að því er Vísir skýrði frá í gær hefur hinni bandarísku blökkumannahljómsveit Rex Stewarts verið neitað um landvistarleyfi hér á landi. Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra hefur bannað allar skemmtanir útlendinga hér á landi. Síðustu árin hafa flykkzt hingað til lands allskonar loddarar og trúðar og auglýstir sem listamenn. Hafa flest borgarablöðin lofsungið hástöfum þenna dáleiðslu- og fettubrettulýð sem listamenn af guðsnáð, enda hafa þeir rakað saman fé með „skemmtunum“ sínum. Það hefði vitanlega verið eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun að takmarka eða banna með öllu starfsemi slíkra manna — og hefði átt að gerazt fyrir löngu. En það er þá fyrst að Bjarni Ben. vaknar í þessu efni þegar blökkumannahljómsveit er væntanleg til landsins. Henni var ekki ætlað að halda hér nema 2 hljómleika og átti hún ekki að fá eyri hér í erlendum gjaldeyri, heldur einungis fargjald frá New York til Kaupmannahafnar greitt í ísl. peningum og uppihald meðan hún dveldi hér. Henni synjar Bjarni Ben. um landvistarleyfi, og mun hún þó vera mun betri í sinni grein en trúðar þeir sem hér hafa verið að flækjast undanfarið. Það vekur því illan grun um að Bjarni Benediktsson láti hér stjórnast af kynþáttafordómum sínum, einkum þegar þess er gætt að á sama tíma eru erlendir trúðar á hringför um landið að raka saman því fé sem þeim er unnt, en ekki hefur heyrzt getið að starfsemi þeirra hafi verið bönnuð. Að banna skemmtanir allra útlendinga er einhliða og heimskuleg ráðstöfun. Undanfarin sumur hafa komið hingað á vegum Tónlistarfélagsins nokkrir af beztu tónlistarmönnum heimsins. Ef banna ætti með öllu komu slíkra manna værí það einungis til þess að setja skrælingjastimpil á íslenzku þjóðina.

Rex Stewart

Í Tímaritinu Jazz var ráðherrann dreginn sundur og saman í háði vegna málsins:

Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti er það fréttist að dómsmálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, hefði bannað hljómsveit Rex Stewart að skemmta á Íslandi, og ekki varð þetta bann skiljanlegra við það, að litlu seinna kom út sú tilskipun frá sama manni, þess efnis að viðurkenndum listamönnum sé landvist heimil en trúðum bönnuð.
Því var almennt trúað áður en þessi tilskipan var send út að hinn hljómlistarelskandi ráðherra væri vel að sér í íslenzkri tungu, þar sem hvert mannsbarn veit, að „trúður“ er nafn á fjölleikafólki og öðru fólki, er gerir það að atvinnu sinni að leika á fjórar munnhörpur, standa á höndum og hafa í frammi önnur skrípalæti, og getur því ekki átt við hljómlistamenn, eða vill Bjarni Benediktsson kalla íslenzka hljómlistamenn trúða, þar sem hann veit að flestir hljómlistamenn hér leika jazz.

- Auglýsing -

En þar sem íslenzkukunnátta þessa manns var svo bágborin, hleypti hann inn hinu munnhörpuleikandi og hoppandi fjölleikafólki, en stöðvaði hina frægu hljómsveit Stewarts, með þeim forsendum að þetta gætu Íslendingar sjálfir, og vill með öðrum orðum halda því fram, að hinum klassisku hljómlistamönnum vorum veitti ekki af að læra.
Það allra skemmtilegasta við þennan atburð er hinn mikli hljómlistaáhugi hins sjálfskipaða „tónlistamálaráðherra“, og hér eftir er það Bjarni Benediktsson, sem velur og hafnar þeim listamönnum, er til landsins vilja koma, og er það virðingavert hve mikla aukavinnu „tónlistamálaráðherrann“ leggur á sig, enda er hann þreyttur mjög um helgar og er skiljanlegt að hann tali þá ekki við hvern sem er, sérstaklega ekki ef það á við þessa vitlausu tónlistamenn, er vilja ekki láta hann hafa vit fyrir sér, og vita ekki að Bjarni Benediktsson hefir miklu meira vit á tónlist en þeir.

Ungur maður hér í bæ sagði við mig í sambandi við þetta mál: „Þetta minnir mig á þann atburð, er kvenfélög í Washington bönnuðu Marion Anderson, hinni svörtu söngkonu að syngja í sönghöllum Washington-borgar vegna þess að hún var svört, en Marion var ekki að baki dottin og söng undir Lincoln-minnismerkinu fyrir 40,000 áheyrendum“. Hvílíkur sigur tónlistarinnar yfir hugmyndasnauðum og kreddufullum andstæðingum. Þetta bann Bjarna Benediktssonar á skemmtunum Stewarts á Íslandi minnir á, er Duke Ellington var bannað að leika í Þýzkalandi á stjórnartímum Hitlers sáluga, en hann var einnig mikill jazzhatari og urðu þýzku jazzklúbbarnir að fara „undir jörðina“ eins og það var orðað, og sigur bandamanna í styrjöldinni var einnig sigur jazzins yfir kreddum í flestum löndum.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst 10. júlí 2022.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -