Bjarni Þjóðleifsson, læknir og prófessor, er látinn. Hann var 85 ára gamall en mbl.is greindi frá andláti hans.
Bjarni fæddist á Akranesi og ólst þar upp. Hann gekk í Menntaskólann á Akureyri og eftir stúdentspróf hóf hann nám í læknisfræði í Háskóla Íslands. Eftir útskrift þaðan starfaði Bjarni meðal annars í Reykjavík og á Sauðárkróki. Hann hélt áfram að mennta sig í læknisfræði í Bretlandi og varð á endanum yfirlæknir meltingasjúkdómadeildar Landspítalans árið 2002 við gott orðspor. Samhliða störfum sínum sem læknir kenndi hann lyflæknisfræði í HÍ og varð prófessor árið 1983.
Þá var hann um tíma formaður Vísindaráðs Landspítala og formaður framhaldsmenntunarráðs Háskóla Íslands.
Bjarni var mikill íþróttagarpur og stundaði meðal annars laxveiði, skvass og golf. Síðar var Bjarni hluti af gönguhóp og fór í ferðir erlendis til að sinna áhugamálum sínum.
Bjarni lætur eftir sig eiginkonu og fjögur börn.