Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Bjarni Frímann: „Árni Heimir Ingólfsson braut á mér kynferðislega – var kærður fyrir nauðgun 2020“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bjarni Frímann Bjarnason tónlistarmaður segir á Facebook-síðu sinni að „Árni Heimir Ingólfsson braut á mér kynferðislega á heimili sínu þegar ég var nemandi hans í Listaháskóla Íslands. Ég var 17 ára, hann var 35 ára.“

Árni Heimir Ingólfsson.

Í færslunni ritar Bjarni að hann hafi reynt hvað hann gat til að halda málinu innan veggja hljómsveitarinnar; sem honum hefur alla tíð þótt vænt um.

Bjarni Frímann skrifar:

„Víti til varnaðar:

Hin árlega ráðstefna norrænna sinfóníuhljómsveita sem haldin er í Hörpu þessa dagana hefur hina víðtæku og mikilvægu yfirskrift Sustainability eða sjálfbærni. Vafalítið er nýliðun í hópi hljóðfæraleikara og stjórnenda veigamikill þáttur í þeirri umræðu. Þess vegna vil ég leggja orð í belg. Bæði fyrir sjálfan mig en ekki síður annað ungt tónlistarfólk svo því verði eins og kostur er forðað frá því að verða fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis eða áreitis sem jafnvel geti leitt til útskúfunar þess í heimi tónlistarinnar.“

Hann bætir við að „eins ósanngjarnt og það nú er að þolendunum sé refsað eins og ég hef því miður upplifað á eigin skinni. Ég hef, m.a. vegna þess hve vænt mér hefur alla tíð þótt – og þykir – um Sinfóníuhljómsveit Íslands, reynt að halda þessari ömurlegu lífsreynslu minni innan veggja hljómsveitarinnar og þar af leiðandi án þess að bera hana opinberlega á torg. Fálætið, og í raun yfirhylmingin, sem ég hef mátt þola frá stjórnendum hljómsveitarinnar hefur hins vegar verið þess eðlis að lengur verður ekki orða bundist; sérstaklega þegar á ráðstefnunni í Hörpu eru eflaust haldnar langar og hátíðlegar ræður um mikilvægi þess að hlúa vel að ungu og upprennandi tónlistarfólki með því að gefa þeim eins mörg tækifæri og frekast er unnt til þess að þroskast og blómstra. Vitneskjan um það sem ég er hér með að opinbera hefur verið til staðar hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í mörg ár án þess að stjórnendur hafi hirt um að gera neitt með hana.“

- Auglýsing -

Bjarni Frímann segir að „fullreynt virðist vera að á því verði nokkur breyting. Þess vegna finn ég mig knúinn til þess að opinbera málið og segja frá því að Árni Heimir Ingólfsson braut á mér kynferðislega á heimili sínu þegar ég var nemandi hans í Listaháskóla Íslands. Ég var 17 ára, hann var 35 ára. Hann var til langs tíma tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og um leið formaður verkefnavalsnefndar hennar. Árni Heimir hefur verið einn áhrifamesti einstaklingur í tónlistarlífi hér á landi í tvo áratugi. Hann hefur verið í algjörri lykilstöðu í starfi sínu hjá Sinfóníuhljómsveitinni, verið mikils metinn kennari við LHÍ og einn virtasti tónlistarfræðingur okkar Íslendinga. Hann hefur verið kvaddur til álits í flestum þeim nefndum sem úthluta styrkjum, verðlaunum og tækifærum í klassískri tónlist síðustu áratugi. Eðlilega hefur ungt tónlistarfólk litið upp til hans og sömuleiðis átt mikið undir honum.“

Hann segir:

Arna Kristín Einarsdóttir.

„Ég hóf störf hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands 2018. Mér varð snemma ljóst að Árni Heimir var viðriðinn allar ákvarðanir sem vörðuðu minn starfsframa og þroskatækifæri hjá hljómsveitinni. Af augljósum ástæðum forðaðist ég öll ónauðsynleg samskipti við hann eftir fremsta megni. Mér er nú orðið ljóst að fyrir það þurfti ég að líða á margan hátt. Ég greindi þáverandi framkvæmdastjóra SÍ, Örnu Kristínu Einarsdóttur, frá því að Árni Heimir hefði brotið á mér. Það krafðist mikils hugrekkis af minni hálfu að segja henni frá þessu enda hafði ég ekki opnað mig um þetta mál við aðra en mína allra nánustu á þeim tímapunkti.

- Auglýsing -
Lára Sóley Jóhannsdóttir..

Hún aðhafðist ekkert annað í málinu en að stinga því undir stól. Ég greindi einnig Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, núverandi framkvæmdarstjóra, og Evu Ollikainen, núverandi aðalhljómsveitarstjóra, frá málinu um leið og þær hófu störf hjá SÍ. Þær hafa heldur ekkert aðhafst.

Eva Ollikainen.

Auk þess veit ég að stjórn SÍ hefur haft vitneskju um málið a.m.k. síðan í september 2021. Þrátt fyrir vitneskju allra þessara aðila um málið þurfti ég að starfa áfram með Árna Heimi. Ég fann það skýrt að hann virtist alltaf eiga síðasta orðið í öllum ákvörðunum sem vörðuðu störf mín fyrir hljómsveitina og ekki síst þegar um sjálfa hljómsveitarstjórnunina var að ræða.“

Bjarni Frímann skrifar að „því miður virðist Árni Heimir hafa nýtt sér yfirburðarstöðu sína gagnvart ungu fólki í fleiri tilfellum en mínu. Ég veit að hann var kærður fyrir nauðgun á öðrum 17 ára pilti árið 2020. Ég hef einnig heyrt frásagnir – eða um frásagnir – fjölmargra ungra tónlistarmanna sem telja sig hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti sem Árni Heimir beitti í krafti hlutverks síns innan tónlistargeirans og um leið valdastöðu gagnvart tækifærum ungs fólks í klassískti tónlist.

Margar, en langt í frá allar, þessara frásagna tengjast samskiptum hans við kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Það er eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar hvort koma hefði mátt í veg fyrir einhver atvik af þessum toga ef stjórnendur hljómsveitarinnar hefðu haft kjark til þess að bregðast við í kjölfar þess sem ég skýrði þeim frá fyrir mörgum árum síðan. Mitt mál hefur aldrei hlotið neina meðferð hjá SÍ sem getur kallast faglegt ferli. Yfirlýsingar framkvæmdastjóra í fjölmiðlum um að til staðar séu „skýrt mótaðaðir verkferlar“ eiga einfaldlega ekki við rök að styðjast. Að minnsta kosti hefur þessi misnotkun sem mig varðar aldrei verið sett í neitt slíkt ferli.“

Hann bætir við að „ég tilheyri ungri kynslóð tónlistarfólks. Kynslóð sem sættir sig ekki við ofríki, valdbeitingu og þöggun þeirra sem halda um stjórnartauma stórra stofnana í tónlistarheiminum. Við höfum einfaldlega ekkert umburðarlyndi fyrir yfirhylmingu og meðvirkni þegar kynferðisbrot eru annars vegar. Okkur dugar ekki fagurgali og innantóm orð á ráðstefnum og í opinberum yfirlýsingum. Við viljum raunverulegar aðgerðir á borði. Sinfóníuhljómsveit Íslands er í eigu fólksins í landinu. Hún er ekki fjölskyldufyrirtæki sem getur látið eigin geðþótta ráða för. Hún er flaggskip íslenskrar tónlistar og hefur ríkar skyldur gagnvart samfélaginu og um leið gagnvart tónlistarfólki. Mér þykir vænt um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur verið minn draumavinnustaður síðan ég var lítill drengur. Hljóðfæraleikarar hljómsveitarinnar hafa allir reynst mér vel og ég á óteljandi kærar minningar með þeim. Ég sakna þess að starfa með þeim og vona að þessi löngu tímabæra frásögn mín útskýri fyrir þeim og öðrum hvers vegna ég sá mér ekki annað fært en að láta af störfum hjá SÍ vorið 2021.

Vonandi er að hljómsveitin opni faðm sinn og umvefji ungt og efnilegt tónlistarfólk af meiri heilindum en ég, og eflaust fleiri, hef fengið að upplifa á undanförnum árum.“

Segir að lokum í færslu sinni:

„Enda þótt Árni Heimir hafi fengið að láta líta svo út að hann tæki pokann sinn hjá SÍ til þess að hverfa til annarra starfa veit tónlistarheimurinn betur. Hann sá sæng sína uppreidda og hrökklaðist frá vegna endurtekins ofbeldis gagnvart ungu fólki í krafti valdastöðu sinnar. Eftir stendur að Sinfóníuhljómsveit Íslands greip ekki tímanlega í taumana heldur skýldi honum og hlífði bæði meðan hann var við störf og þegar hann lét af þeim. Það hljóta að teljast alvarleg mistök. Þau mega ekki endurtaka sig. Þess vegna eru þessar línur skrifaðar. Bjarni Frímann Bjarnason.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -