Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, reyndi að dreifa athygli kjósenda og flokksmanna á flokksráðsfundi í dag.
Í ræðu sinni á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokknum í dag sagði formaðurinn frá því að þó ríkisstjórnarsamstarfið væri stundum erfitt þá væri ríkisstjórnin að standa sig mun betur en meirihlutinn sem stjórnar Reykjavíkurborg. Þá skautaði Bjarni fagmannlega framhjá allri gagnrýni og miklu fylgistapi en samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið í sumar þá mælist flokkurinn með sögulega lágt fylgi.
„Sjálfstæðisflokkurinn er ekki fullkominn, rétt er það. En það er munur á því að vera ekki fullkominn og vera fullkomlega vonlaus. Og já – flestir hér inni vita hvaða flokk ég á við. Nýverið hefur umræddur flokkur til dæmis verið að innleiða nýja umhverfisstefnu í Reykjavík.
Hún felst í því að íbúar stunda ósjálfviljugir moltugerð í tunnunum heima. Verkefnið er afrakstur nokkurra stýrihópa, en niðurstaðan er einföld; ruslið er ekki sótt, borgarbúar hamast við að flokka, en sorpið safnast upp og er nú að verða óaðskiljanlegur hluti borgarlandslagsins.
Staðan á fjármálum borgarinnar er enda táknræn: Þau eru í rusli. Öll grunnþjónusta er að drabbast niður, en pólitísku gæluverkefnin þenjast út næstum jafnhratt og fjölmiðlatröllasvið borgarstjóra,“ sagði Bjarni um stöðuna í Reykjavík.