Björgunarsveitir á Austurlandi voru kallaðar út í tvígang í nótt.
Austurfrétt segir frá því að áhöfn björgunarbátsins Hafbjargar í Neskaupsstað hafi komið skipverja lítils fiskibátar til hjálpar um fimm leytið í morgun. Maðurinn hafði slasast illa á fæti og var ófær um að sigla bátnum til hafnar. Báturinn var um sextán sjómílur austur af Norðfjarðarhorni. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð til en hífa þurfti manninn upp í börum af fiskibátnum og um borð í þyrluna.
Allt gekk að óskum samkvæmt upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og fór þyrlan til Reykjavíkur með hinn slasaða með eldsneytisstoppi á Egilsstaðaflugvelli um klukkan sjö í morgun. Var bátnum síðan komið í höfn í kjölfarið.
Nokkru fyrr um nóttina eða um tvö leytið barst björgunarsveitinni Báru á Djúpavogi útkall vegna annars fiskibáts. Sá var stjórnlaus vegna stýrisbilunar rétt austur af Papey. Vel gekk að koma taug í bátinn er björgunarsveiting bar á vettvang og voru allir komin að bryggju um hálf fimm leytið
Enn fyrr, eða síðdegir í gær þurfti Bára að fara í annað útkall en liðsmenn hennar þurftu að koma slösuðum hjólreiðarmanni til aðstoðar en hann hafði handleggsbrotnað á ferð sinni inni í Hamarsdal. Vel gekk að koma hinum slasaða í sjúkrabíl og til læknis.