Björgvin Valur Guðmundsson, kennari og áhugamaður um fornleifarannsóknir á Stöðvarfirði, skrifaði í gær færslu á Facebook þar sem hann talaði um hugmyndir Sigurðar Inga Jóhannesson innviðaráðherra um gjöld í göng Íslands. Gaf Björgvin Valur Mannlífi góðfúslegt leyfi til birtingar á færslunni.
Sjá einnig: Gjaldtaka í öllum jarðgöngum landsins: „Hljómar þetta afskaplega illa fyrir okkur“
Björgvin Valur, sem hefur fyrr á árum verið í framboði fyrir Samfylkinguna og verið áberandi í samfélagsumræðunni, gagnrýnir hugmyndir Sigurðar Inga og þá „forheimskandi pólitík sem stunduð er hér á landi“ eins og hann orðaði það.
„Sigurði Inga innviðaráðherra og formanni Framsóknarflokksins tókst í vikunni að fá upp á móti sér alla þá sem þurfa reglulega að aka um jarðgöng til þess að sinna brýnum erindum eins og t.d. matarinnkaupum eða fara til læknis. Þetta gerði hann með því að leggja til, að til dæmis manneskja sem býr á Breiðdalsvík og er vön að aka til Reyðarfjarðar til þess að komast í næstu almennilegu „lágvöruverðsverslun“ og borgar 340 krónur fyrir hvern lítra af eldsneyti sem hún notar á leiðinni, þurfi bráðum að greiða veggjald til þess að fara um Fáskrúðsfjarðargöng og fjármagna þar með um leið næstu jarðgöng á Íslandi.“
Björgvin Valur talar því næst um Seyðfirðinga sem hann segir hafa móðgast persónulega vegna gagnrýninnar enda hafa þeir beðið eftir Fjarðarheiðargöngunum um árabil.
„Seyðfirðingar tóku því síðan persónulega þegar húsmæður og -feður í þessari stöðu mótmæltu þessu (kannski full harkalega sum okkar) en ég held að við sem búum dreift og þekkjum vondar samgöngur á eigin skinni, höfum ekki verið að veitast að Seyðfirðingum heldur ráðherranum og hinni forheimskandi pólitík sem er stunduð á Íslandi.“
Þá kemur Björgvin Valur inn á kaup Síldarvinnslunar í Neskaupsstað á Vísi í Grindavík sem kunngjörð voru fyrir stuttu. Vill færsluhöfundur meina að þetta hafi farið fyrir brjóstið á fólki, að til sé svona mikill peningur í landinu eða „eitt fyrirtæki geti keypt annað skuldsett fyrirtæki“ á meðan fólk á Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði „greiði fyrir næstu samgöngumannvirki í landinu um leið og þær skreppa af bæ til þess að kaupa í matinn.“
Það var eiginlega þetta sem fór (og fer) fyrir brjóstið á fólki; að það skuli vera til svona mikið af peningum í landinu að eitt fyrirtæki geti keypt annað skuldsett fyrirtæki um leið og ráðamenn ætla að láta húsmæður (og guð fyrirgefi mér fyrir að segja þetta) á hinum fagurgrænu Framsóknarengjum, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði, greiða fyrir næstu samgöngumannvirki í landinu um leið og þær skreppa af bæ til þess að kaupa í matinn.“
Að lokum talar Björgvin Valur um viljaleysi íslenskra stjórnvalda til að sækja peninga þangað sem þeir eru og kemur einnig með kenningu um hugmyndir Sigurðar Inga.
Sækjum peningana þangað sem þá er að finna en ekki í hallarekstur heimilanna.“
Færslan vakti talsverða athygli en Egill Helgason, fjölmiðlamaður spurði Björgvin Val í athugasemdum út í svokölluð T-göng um Mjóafjörð.
„Segðu mér eitt sem austfirðingur – eru T-göng um Mjóafjörð ekki betri hugmynd en hin ógnarlöngu Fjarðarheiðargöng?“
Upp úr spurningu Egils spruttu líflegar umræður sem hægt er að lesa undir færslu Björgvins Vals hér fyrir neðan.