Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Björn Bjarnason: Aðildarumsóknin er viðvörun fyrir allar nágrannaþjóðir Rússa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þegar litið er til stefnu þessara þjóða í öryggis- og varnarmálum frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar er í raun um gífurlega sögulegt skref að ræða þegar þjóðirnar tvær ganga í NATO,“ segir Björn Bjarnason um sýn sína á umsókn Svía og Finna í NATO. „Þótt umræður hafi verið um NATO-aðild í löndunum um nokkurt árabil var litið á hana sem fjarlægan og næsta óhugsandi kost. Síðan varð stefnubreyting á fáeinum vikum eða kannski frekar sólarhringum eftir að Pútin sendi rússneska herinn inn í Úkraínu. Það segir í raun mest um hættuna sem ráðamenn Finna og Svía telja stafa frá óútreiknanlegum og stríðsóðum Pútin. Aðildarumsóknin er því viðvörun fyrir allar nágrannaþjóðir Rússa og ábending um nauðsyn þess að gera allt til að fæla þá frá árás með traustum vörnum í samvinnu við aðra. Enginn vettvangur er betri til þess en NATO. Með því að draga þannig úr líkum á átökum í Norður-Evrópu hafa Finnar og Svíar aukið öryggi okkar Íslendinga, nú og til frambúðar.“

Heimsmyndin er sífellt að breytast og nú færist þetta nær okkur vegna stríðsins í Úkraínu.

Hann svífst á hinn bóginn einskis.

„Undir stjórn Pútins hefur Rússlandi ekki vegnað vel og staða hans heima fyrir veikst. Hann svífst á hinn bóginn einskis og hefur aldrei gert til að ná auði og völdum og halda þeim. Þar hafa hernaðarátök gagnast honum. Hann hélt að svo yrði einnig nú og sér yrði fagnað með blómum í Úkraínu sem staðfestir aðeins firringu hans. Á meðan þetta ástand varir og Rússland lýtur stjórn manns sem þannig kemur fram gagnvart friðsamri nágrannaþjóð, algjörlega að tilefnislausu, er ástæða til að hafa áhyggjur af þróun heimsmála.“

Ríkir hættulegt ástand á meginlandi Evrópu og áhrifa þess verður vart á Norður-Atlantshafi.

Hver er staða Íslands hvað varðar öryggismál?

„Íslendingar verða að taka mið af því sem gerist í kringum þá eins og allir aðrir. Miðað við það sem ég hef sagt hér áður ríkir hættulegt ástand á meginlandi Evrópu og áhrifa þess verður vart á Norður-Atlantshafi.

Það er rangt sem haldið var fram að innrásar Pútins í Úkraínu yrði ekki hernaðarlega vart hér á Norður-Atlantshafi og ekki þyrfti að huga að öryggismálum Íslands á nýjan hátt í ljósi hennar. Mikilvægi rússneska Norðurflotans sem sækir út á Atlantshaf frá Kólaskaganum fyrir austan Noreg eykst eftir því sem styrkur landhers Rússa minnkar. Sýnir Pútin vald sitt með þessum flota? Enginn getur svarað þeirri spurningu. Ferðum rússneskra kafbáta í nágrenni Íslands fjölgar. Mikilvægi GIUK-hliðsins eykst.

- Auglýsing -

Til marks um aukna áherslu á varnir og kafbátaleit á Norður-Atlantshafi má nefna að sunnudaginn 19. júní birtist á bresku vefsíðunni The Telegraph frásögn um nauðsyn þess að auka enn kafbátaeftirlit breska flughersins og flotans. Utanríkismálanefnd danska þingsins samþykkti 23. júní að senda freigátu sem fylgdarskip með bandarísku flugmóðurskipi sem verður sent á vettvang til að auka fælingarmátt á Norður-Atlantshafi. Nágrannaþjóðir sem ráða yfir eigin herafla grípa til ráðstafana. Við þurfum einnig að líta í eigin barm.“

Björn Bjarnason

 

Ferðum vélanna hefur fjölgað og þeim fylgja hermenn.

- Auglýsing -

Hvað með umsvif bandaríska hersins hér á landi og við landið?

„Hér er um umsvif að ræða með flugvélum frá aðstöðu á Keflavíkurflugvelli sem lýtur daglegri umsjá Landhelgisgæslu Íslands. Hingað koma eftirlitsflugvélar í leit að kafbátum, orrustuþotur og sprengjuvélar. Ferðum vélanna hefur fjölgað og þeim fylgja hermenn sem dveljast hér tímabundið. Þetta er eðlilegt í ljósi þróunar öryggis- og varnarmálanna. Það er spurning hvort ekki eigi einnig að skapa betri hafnaraðstöðu hér fyrir herskip Bandaríkjamanna og annarra bandamanna okkar.“

 

Herða landamæraeftirlit

Notkun skotvopna eykst hérlendis. Af hverju stafar þessi staðreynd; þessi ógn og hvað þarf að gera að mati Björns?

„Mesta hættan fyrir almenning af misnotkun skotvopna stafar af þeim sem fara einir út á meðal fólks til að myrða í þeim eina tilgangi að svala eigin geðþótta eða ná sér niðri á samfélaginu, til dæmis vegna öfgaskoðana. Fjöldi vopna segir ekki allt þótt hann skipti vissulega máli. Greining og eftirilit, forvarnaraðgerðir, skipta mestu til að minnka hættuna á að „einmana úlfar“ láti að sér kveða hér og annars staðar.

Besta úrræðið til að ná tökum á þeirri hættu er að herða landamæraeftirlit.

Annars konar hætta stafar af vopnum í höndum skipulagðra glæpahópa eða hryðjuverkamanna. Besta úrræðið til að ná tökum á þeirri hættu er að herða landamæraeftirlit og efla löggæslu almennt svo að hún hafi sem besta sýn yfir þessa glæpastarfsemi þar sem menn hika ekki við að grípa til vopna í innbyrðis uppgjöri eins og dæmin sanna.“

Björn Bjarnason

Varðberg

Varðberg – samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál er félag sem stofnað var á fjölmennum fundi á Hótel Sögu fimmtudaginn 9. desember árið 2010. Með félaginu runnu tvö félög saman í eitt: Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg.

 

Tilgangur Varðbergs er:

  1. Að beita sér fyrir umræðum og kynningu á alþjóðamálum, einkum þeim þáttum þeirra sem snúa að öryggis- og varnarmálum á norðurhveli jarðar.
  2. Að efla skilning á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta.
  3. Að vinna að kynningu á samstarfi og menningu þjóða, sérstaklega störfum og stefnu Atlantshafsbandalagsins.
  4. Að hafa samstarf við hliðstæð félög erlendis, eftir nánari ákvörðun stjórnar samtakanna.

„Ég var formaður Varðbergs í 10 ár en þá tók Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður við formennskunni.

Frá árinu 2015 hef ég haldið úti vefsíðunni vardberg.is en þar er að finna gífurlegt magn upplýsinga um þróun öryggismála í okkar heimshluta og einkum á norðurslóðum. Síðan er opin öllum og ætti að vera þeim gagnabanki sem vilja fylgjast með framvindu öryggismála frá íslenskum sjónarhóli við mat á alþjóðlegum fréttum.“

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -