Björn Birkisson bóndi i Botni í Súgandafirði er látinn. Hann var einungis 66 ára. Eiginkona hans, Helga Guðný Kristjánsdóttir, greinir frá því hann hafi fyrr í dag látist á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði.
Björn var einn af fáum sem stundaði enn kúabúskap á norðanverðum Vestfjörðum. Eitt sinn voru um 90 kúabú þar en voru orðin níu árið 2012. Hann naut virðingar meðal samborgara sinna og var alla tíð sannur í því sem hann gerði. Þá vann hann ýmis félagsstörf en hann var meðal annars gjaldkeri Súgandafjarðardeildar Rauða kross Íslands en einnig sat hann um árabil í skólanefnd bændaskólans.
Helga Guðný skrifaði við dánartilkynninguna frumsamið ljóð:
Að endingu lauk þessu eilífðarbrasi
Oft eru andvörpin þung.
Í nösum er angan af nýslegnu grasi
Og nóttin er ung.
Minningarathöfn Björns verður frá Ísafjarðarkirkju 21. júlí kl. 16:00. Útför fer fram frá Kotstrandarkirkju 23. júlí kl. 14:00